Úrslit í upplestrarkeppni grunnskólanna

Frá upplestrarkeppninni í gær. Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs í pontu. Myn…
Frá upplestrarkeppninni í gær. Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs í pontu. Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.

Upphátt, upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri, fór fram í Kvosinni í Menntaskólanum á Akureyri í gær. Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin undir þessu heiti en undanfarið tuttugu og eitt ár hefur hún verið haldin undir heitinu Stóra upplestrarkeppnin. Nemendur úr 7. bekk grunnskóla bæjarins tóku þátt í keppninni.

Upplestrarkeppni grunnskólanna hefur skipað stóran sess hjá 7. bekkingum og er mikil vinna sem liggur að baki henni. Upphafsdagur hátíðarinnar er á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember ár hvert, og skiptist hún í tvo hluta; ræktunarhluta og keppnishluta. Í fyrri hlutanum er mikil áhersla lögð á að nemendur æfi upplestur, vandaðan framburð, túlkun og framkomu. Þessum hluta lýkur með forkeppni þar sem hver skóli velur sína tvo fulltrúa auk varamanns til að taka þátt í lokakeppninni fyrir hönd skólans.

Það voru því 15 hæfileikaríkir nemendur sem lásu part úr sögunni "ÓGN, ráðgátunni um Dísar-Svan" eftir Hrund Hlöðversdóttur og ljóð eftir Sigmund Erni Rúnarsson. Dómnefnd skipaði Vilhjálmur Bergmann Bragason, Hólmkell Hreinsson og Gunnhildur Ottósdóttir. Ómissandi þáttur þessarar hátíðlegu stundar er tónlistarflutningur nemenda Tónlistarskólans í umsjá Steinunnar Arnbjargar Stefánsdóttur, Helenu Bjarnadóttur og Eydísar Úlfarsdóttur.

Allir nemendur voru sér og skólum sínum til mikils sóma og því átti dómnefnd ekki öfundvert hlutskipti að velja í verðlaunasætin.

Sigurvegarar í Upphátt, upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri 2022 eru:

  • Snjóki M. Gunnarsson, Oddeyrarskóli, 1. sæti
  • Guðmundur Jóvin Sigvaldason, Brekkuskóli, 2. sæti
  • Lilja Maren Jónsdóttir, Naustaskóli, 3. sæti

Bestu þakkir fá upplesarar, kennarar, tónlistarflytjendur, styrktaraðilar og aðrir sem komu að undirbúningi og framkvæmd keppninnar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan