Unnur Jónsdóttir 100 ára

Bæjarstjórinn og afmælisbarnið.
Bæjarstjórinn og afmælisbarnið.

Unnur Jónsdóttir, íbúi á öldrunarheimilinu Hlíð, fagnaði á laugardag 100 ára afmæli sínu. Bæjarstjórinn á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, heimsótti Unni á afmælisdaginn og færði henni blóm í tilefni dagsins.

Unnur fæddist í Norðurgötu 4 á Akureyri og hefur búið á Akureyri alla sína tíð. Bjó hún í rúm 60 ár í Gránufélagsgötu 43 (Vopnahúsið), þaðan fluttist hún í Lindasíðu 4 þar sem hún var búsett í 22 ár og býr nú á Hjúkrunarheimilinu Hlíð. Einnig var hún í sveit á Litla Hamri í Eyjafjarðasveit og var sú vera og fólkið þar henni afar kært.

Unnur hefur á starfsaldri sínum sinnt ýmsum störfum, m.a. hjá fataverksmiðjunni Gefjun, Heklu, síldarvinnslu á Siglufirði og Niðursuðuverksmiðju K. Jónssonar. Einnig var Unnur heimavinnandi og sinnti umönnun foreldra sinna en faðir Unnar náði einnig 100 ára aldri.

Unnur er ógift og barnlaus en hélt lengi vel heimili ásamt foreldrum sínum. Frænka Unnar, nafna og fósturdóttir, Unnur Huld, er alin upp á heimili Unnar og foreldra hennar Önnu og Jóns Vopna. Þar bjuggu líka Kristin Huld, mamma Unnar Huldar, og Skúli, systursonur Unnar.

Samband þeirra frænkna og nafna hefur frá fyrstu tíð verið mjög náið, traust og falleg vinátta sem þær búa enn að og er þeim dýrmæt og báðum mikill styrkur.

Á myndinni hér til vinstri eru nöfnurnar Unnur og Unnur Huld.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan