Unnið samkvæmt forgangsröðun um uppbyggingu íþróttamannvirkja

Uppbygging á félagssvæði Nökkva er fyrst á listanum.
Uppbygging á félagssvæði Nökkva er fyrst á listanum.

Bæjarstjórn samþykkti í gær með 11 samhljóða atkvæðum að forgangsröðun þverpólitísks hóps um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri verði höfð til hliðsjónar við undirbúning langtíma fjárfestingaráætlunar bæjarins.

Heildarkostnaður hátt í sjö milljarðar

Í skýrslu starfshópsins um nýframkvæmdir íþróttamannvirkja er að finna tillögur að forgangsröðun uppbyggingar næstu 15 árin. Forgangslistinn telur 11 verkefni og er heildarkostnaður við þau gróflega metinn á 6.750 milljónir króna.

Í vinnu sinni horfði starfshópurinn til atriða sem skipta máli fyrir bæjarfélagið í heild. Einkum var litið til fjölbreytni og gæða núverandi mannvirkja, nýtingu þeirra, fjölda iðkenda, skólastarfs, ferðaþjónustu og almennings.

Hér er hægt að skoða skýrsluna.

Fyrsta verkefnið að fara af stað

Bæjarstjórn ræddi málið á fundi í gær og var samþykkt að líta til þeirrar forgangsröðunar sem er í skýrslunni við gerð fjárhagsáætlunar hvers tíma.

„Verkefnin voru metin út frá fjárhagslegum og félagslegum forsendum og endurspegla niðurstöður hópsins þá þörf sem er til staðar í bænum. Um tímamótaáætlun er að ræða þar sem horft er til framtíðar í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri og þeim forgangsraðað. Nú þegar er búið að samþykkja fyrsta verkefnið samkvæmt áætluninni og undirbúningur hafinn á næstu tveimur,“ segir í bókun bæjarstjórnar.

Fyrsta verkefnið sem vísað er til er uppbygging á félagssvæði Nökkva við Höpnersbryggju. Félags- og æfingaaðstaða í Skautahöll Akureyrar er næst á listanum og þar á eftir er gervigrasvöllur og stúka á félagssvæði KA.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan