Unnið að því að ryðja og hálkuverja

Nokkrir vinnuflokkar á vegum bæjarins og verktaka vinna nú skipulega að því að hreinsa götur og hálkuverja stíga.

Miklar hitabreytingar hafa orðið síðasta sólarhringinn, snúist í hlýindi og rigningu sem hefur í för með sér asahláku. Þónokkur snjór hafði þjappast á götur Akureyrarbæjar í frostinu sem nú hefur breyst í þungt krap. Fyrir vikið voru margar götur illfærar í morgun.

Mikil áhersla er lögð á að hreinsa bæinn og gera hann vel færan eins fljótt og auðið er. Heflar hafa verið á ferðinni síðan snemma í morgun og er búið að ryðja strætóleiðir og helstu aðalgötur. Nú er unnið að því að hreinsa í fjölbýlishúsagötum og eru snjómoksturstæki í notkun víða um bæinn.

Bæjarstarfsmenn eru einnig á ferðinni við að brjóta frá niðurföllum og hleypa vatninu niður. Rétt er að hvetja bæjarbúa til að losa frá niðurföllum við heimili, til dæmis á bílastæðum, og koma þannig í veg fyrir að allt farið á flot.

Þessu ástandi fylgir líka flughálka og eru bæjarbúar beðnir um að fara varlega. Fimm sandburðarvélar eru í notkun og er í forgangi að sandbera stíga og gangstéttir sem allra fyrst.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan