Ráðstafanir vegna framkvæmda á lóð Glerárskóla

Miklar framkvæmdir standa nú yfir á svæðinu í kringum Glerárskóla. Unnið er að því að byggja leikskólann Klappir, gera nýtt plan við Drangshlíð, endurgera neðra bílastæðið við Glerárskóla, auk þess sem framkvæmdir eru að hefjast við nýjan körfuboltavöll (Garðinn hans Gústa).

Fyrir vikið er orðið mjög þröngt á svæðinu og þarf að gera ákveðnar ráðstafanir til að tryggja umferðarflæði og aðgengi að Glerárskóla.

Opnað verður fyrir umferð um stíg inn á svæðið úr Háhlíð/Melgerðisás. Stígurinn er mjór, einbreiður og með krappri beygju en fólksbílar komast um hann. Þegar inn á Glerárskólasvæðið er komið er hægt að leggja bílum á malbikað svæði í suðausturhorninu. Fyrir hreyfihamlaða er ýmist hægt að fara norðan við skólann og komast þannig alveg „upp að dyrum“ sundlaugarinnar eða suður fyrir skólann og leggja í um 30m fjarlægð frá inngangi að íþróttahúsinu. Sjá mynd.

Nesbræður hófu framkvæmdir í gær við endurgerð neðra bílastæðisins. Ætlunin er að fara á fullt á mánudaginn og stefnt á að hleypa umferð á nýtt plan 16. ágúst. Efra bílastæðið (við Drangshlíð) er malbikað og hægt verður að nýta sér það að einhverju marki og ganga að sundlauginni/íþróttahúsinu.

Allir sem mögulega geta eru beðnir um að ganga að staðnum, eða nota aðra samgöngumáta en einkabílinn, meðan á þessum framkvæmdum stendur næstu vikurnar.

Beðist er velvirðingar á óþægindum sem framkvæmdirnar og skert aðgengi kunna að valda.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan