Umferðaröryggisaðgerðir í Oddeyrargötu

Starfsfólk bæjarins hefur að undanförnu fengið ábendingar um að bílaumferð og hraði í Oddeyrargötu hafi aukist. Eflaust spilar þar inn í að Kaupvangsstræti hefur reglulega verið lokað í vor vegna framkvæmda.

Margt bendir hins vegar til þess að umferðarhraði í Oddeyrargötu sé of mikill og kalli á viðbrögð, en löglegur hámarkshraði þar er 30km/klst.

Hraðamælingar voru í gangi síðastliðna viku og verða niðurstöður bornar saman við fyrri mælingar.

Færanleg hraðahindrun hefur verið sett í götuna og er önnur á leiðinni. Skilti með upplýsingum um hámarkshraða hefur verið bætt við og verður hámarkshraðinn jafnframt málaður í götuna á næstunni. Einnig á að skerpa á máluðum bílastæðalínum.

Þess má einnig geta að samkvæmt nýju stígaskipulagi Akureyrarbæjar til framtíðar er gert ráð fyrir tengistíg í Oddeyrargötu. Þegar hönnun og framkvæmdir á þeim hluta skipulagsins hefst má gera ráð fyrir einhverjum breytingum á núverandi götumynd. Þessi áfangi stígaskipulagsins hefur þó ekki verið tímasettur og er ekki kominn á fjárhagsáætlun næstu þriggja ára, enda eru stofnstígar skipulagsins í fyrsta áfanga.

Hjálpumst öll að við að tryggja umferðaröryggi í bænum okkar og virðum hámarkshraða. Veitum umhverfi okkar og aðstæðum athygli og tryggjum rétt og öryggi allra vegfarenda.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan