Umferðaröryggi í kringum Brekkuskóla og Rósenborg

Gripið hefur verið til aðgerða á svæðinu í kringum Brekkuskóla og Rósenborg, samhliða skólabyrjun og fjölgun nemenda, til þess að auka umferðaröryggi í þágu gangandi vegfarenda.

Meðan á endurbótum á húsnæði Lundarskóla stendur munu um 175 nemendur í 7.-10. bekk sækja skóla í Rósenborg. Þessu fylgir óhjákvæmilega aukinn fjöldi barna og ungmenna á svæðinu. Reynslan sýnir að búast megi við aukinni bílaumferð í kringum skólana á álagstímum þegar veturinn gengur í garð.

Með aðgerðum bæjarins er markmiðið að draga úr hraða og helst að halda bílaumferð frá svæðinu. Aðkoma hefur verið endurskipulögð með öryggi gangandi vegfarenda í huga.

Helstu aðgerðir/breytingar:

  • Vel skilgreindar gönguleiðir að skólunum og nýjar og spennandi merkingar.
  • Stígurinn úr gilinu og upp að bílastæði vestan við Rósenborg verður lokaður bílaumferð.
  • Sérstök sleppisvæði fyrir bifreiðar við Þórunnarstræti ofan við Íþróttahöll og við Kaupvangsstræti og Eyrarlandsveg fyrir neðan Rósenborg.
  • Bílastæðið við Brekkuskóla og Sundlaug Akureyrar verður merkt með einstefnuörvum.
  • Ný hraðahindrun við innkeyrslu. 

Nemendur eru að sjálfsögðu hvattir til að ganga eða hjóla í skólann og starfsfólk sömuleiðis. Nánar um það hér. 

Ef skutla þarf í skólann þá eru ökumenn beðnir um að nota sleppisvæðin, sjá mynd, fremur en að keyra inn á svæðið og niður Skólastíg. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan