Um snjómokstur á Akureyri

Snjómokstur er í fullum gangi eftir óveðrið sem geysaði í vikunni. Áfram verður haldið um helgina og þangað til bærinn hefur verið hreinsaður að fullu, en búast má við að það taki nokkra daga til viðbótar.

Um 50 manns vinna nánast allan sólarhringinn að þessu verkefni og eru notuð til þess hátt í 40 snjóruðningstæki.

Hvað er búið að moka?
Þegar óveður sem þetta gengur yfir miðast þjónustan við að halda helstu stofn-, tengibrautum, strætisvagnaleiðum og aðgengi að neyðarþjónustu eins opnu og kostur er. Enn sem komið er hefur megin áherslan verið á þessar leiðir, svo og helstu göngu- og hjólastíga milli bæjarhluta og leiðir sem liggja að skólum, leikskólum, strætóbiðstöðvum og helstu stofnunum bæjarins, til dæmis öldrunarheimilum og þjónustukjörnum.

Nú er búið að ryðja strætóleiðir og allar helstu götur og stíga milli hverfa. Þetta hefur eðlilega tekið tíma, enda var ástandið slæmt og á göngustígum voru skaflarnir sums staðar mun hærri en vélarnar sem voru notaðar til moksturs. Mokstursfólki ber saman um að snjórinn sé erfiður við að eiga, þykkur og harður, og hefur þurft að ryðja sumar af stærstu götum bæjarins nokkrum sinnum til að gera þær færar.

Hvað er framundan?
Allur tiltækur mannskapur verður við mokstur um helgina og hefur verið hafist handa við að hreinsa inni í flestum eða öllum íbúðarhverfum bæjarins.

Þegar mokstur hefst inni í hverfum er unnið eftir því að reyna að hreinsa hjá sem flestum íbúum á sem stystum tíma. Almennt er byrjað á leiðum sem liggja að fjölbýlishúsum og getur þar af leiðandi tekið lengri tíma að komast í litlar eða fáfarnar einbýlishúsagötur. Þetta eru vinnureglur, en meta þarf aðstæður hverju sinni og getur ýmislegt haft áhrif, til dæmis það hvernig gengur að koma snjónum í burtu.

Gert er ráð fyrir því að um helgina verði komist langt með að hreinsa bæinn. Þetta mun allt koma á endanum. Tilefni er til að þakka íbúum fyrir að sýna ástandinu þolinmæði og eins er fólk hvatt til að sýna þeim sem sinna snjómokstri tillitssemi, moka af bílum svo þeir sjáist og færa þá eftir atvikum.

Í kortasjá Akureyrarbæjar eru upplýsingar um fyrirkomulag snjómoksturs. Með því að haka í „Vetrarþjónusta" í stikunni til hægri má til dæmis sjá hvaða leiðir njóta forgangs.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan