Þrjú ný útibókasöfn á Akureyri

Þremur útibókasöfnum hefur verið komið upp á Akureyri og voru þau vígð á Alþjóðadegi læsis. Þar eru barnabækur sem gestir og gangandi geta notið á ferð sinni um bæinn.

Í áratugi hafa Sameinuðu þjóðirnar helgað 8. september málefnum læsis. Deginum var fagnað á Akureyri líkt og víða annars staðar. Amtsbókasafnið á Akureyri, Barnabókasetur, Bókasafn Háskólans á Akureyri, fræðslusvið Akureyrarbæjar og Miðstöð skólaþróunar stóðu fyrir ýmsum viðburðum.

Útibókasöfnin voru hönnuð og smíðuð af ungmennum í vinnuskóla Akureyrarbæjar undir stjórn Brynhildar Kristinsdóttur smíðakennara. Hægt er að taka bækur, skoða þær og skila aftur, en það má líka taka bækur með heim og eiga þær. Eins má gefa vel með farnar bækur í skápana og gefa þeim nýtt líf. 

Hvetja til samveru á útisvæðum

Markmiðið er að minna á mikilvægi læsis, auka aðgengi að bókum og hvetja til samveru fjölskyldunnar á útisvæðum bæjarins. Þar að auki stuðlar verkefnið að sjálfbærni og umhverfisvernd þar sem notaðar bækur og endurvinnanlegur efniviður er lagður til grundvallar.

Útibókasöfnin voru vígð á sunnudaginn við Amarohúsið í miðbænum, þar sem eitt þeirra er staðsett. Hin eru í Lystigarðinum og í Boganum. 

Í kjölfar vígslunnar sagði Ragnheiður Inga Matthíasdóttir, 11 ára rithöfundur, frá ferðahandbókinni „Tenerife krakkabókin – Geggjað stuð fyrir hressa krakka“ sem hún skrifaði í samstarfi við móður sína. Þá var einnig boðið upp á lestrarvöfflur í Eymundsson.

Ragnheiður Inga segir frá bókinni sinni.  Útibókasafn við Amarohúsið Útibókasöfnin vekja áhuga. Í Lystigarðinum.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan