Þjónusta bæjarins við aldraða

Litla Jólabúðin hefur verið opnuð í Öldrunarheimilinu Hlíð við Austurbyggð. Þar er að finna margt sn…
Litla Jólabúðin hefur verið opnuð í Öldrunarheimilinu Hlíð við Austurbyggð. Þar er að finna margt sniðugt í jólapakkann; kertastjaka, snjókorn, tuskur, sultur og alls konar skraut. Megnið af vörunum er handverk heimilisfólksins á ÖA. Búðin er opin frá kl. 8-16 alla virka daga. Allir velkomnir.

Akureyrarbær veitir öldruðum umfangsmikla og fjölþætta þjónustu á ýmsum sviðum. Helstu þættir eru víðtæk heimaþjónusta, dagþjálfun, rekstur Öldrunarheimila Akureyrar og félagsstarf af margvíslegum toga.

Markmið þeirrar þjónustu sem Akureyrarbær veitir er að aldraðir geti búið sem lengst heima hjá sér með stuðningi eftir því sem þörf krefur. Ef fólk getur ekki lengur búið heima þrátt fyrir stuðning af ýmsum toga þá sækir það um færni- og heilsumat í því skyni að fá búsetu á öldrunarheimilum bæjarins.

Heimaþjónusta fyrir aldraða er rekin af búsetusviði og fer eftirspurn eftir henni ört vaxandi. Heimaþjónustan er veitt allan sólarhringinn alla daga ársins en næturvaktir eru í samvinnu við heimahjúkrun. Markmið heimaþjónustu er að létta undir með fólki í daglegu lífi þess og gera því kleift að búa sem lengst heima. Þeir sem búa heima geta sótt um að fá heimsendan mat, óskað eftir ráðgjöf iðjuþjálfa við athafnir daglegs lífs og notið akstursþjónstu fyrir aldraða sem er gjaldfrjáls á virkum dögum.

Hluti af heimaþjónustunni er einnig að bjóða upp á innlit eða heimsóknir í ýmsum tilgangi, svo sem til að fylgjast með velferð einstaklingsins og minna á lyfjatöku. Auk þess getur fólk sótt um aðstoð við innkaup og annan rekstur erinda sinna. Félagsleg samskipti og samneyti eru mikilvægir þættir í starfi heimaþjónustunnar og leitast er við að koma í veg fyrir eða rjúfa félagslega einangrun þegar þannig ber undir. Við heimaþjónustu fyrir aldraða hjá Akureyrarbæ starfa ríflega 40 manns.

Ýmis úrræði og tilboð í félagsstarfi eru í boði fyrir aldraða á vegum samfélagssviðs bæjarins. Í Víðilundi og í Bugðusíðu eru haldin ýmis konar námskeið, fólk sinnir handverki og nýtur afþreyingar af ýmsum toga. Einnig er fjölbreytt starf í handverksmiðstöðinni Punktinum í Rósenborg, Skólastíg 2. Í félagsmiðstöðinni Víðilundi er starfandi notendaráð og er hlutverk þess að vera talsmenn fólksins sem nýtir félagsmiðstöðvarnar og taka við ábendingum og tillögum um starfsemina. Einnig stendur ráðið fyrir viðburðum í samvinnu við forstöðumann og starfsfólk. Akureyrarbær styður einnig við starf Félags eldri borgara á Akureyri með sérstökum samningi þar um.

Á fjölskyldusviði gefst öldruðum og aðstandendum þeirra kostur á að leita sér félagslegrar ráðgjafar.

Öldrunarheimili Akureyrar eru rekin af Akureyrarbæ. Auk aldraðra Akureyringa eiga aldraðir íbúar nágrannasveitarfélaganna einnig kost á þjónustu á öldrunarheimilunum. Öldrunarheimilin eru á tveimur stöðum fyrir alls 182 íbúa og þar af eru 155 hjúkrunarrými, 10 dvalarrými og 17 hjúkrunarrými fyrir tímabundna dvöl og hvíldardvöl. Dagþjálfunarrými eru 35. Hjá Öldrunarheimilum Akureyrar er markmiðið að tryggja öldruðum vistlegt heimili, hjúkrun, örvun og aðhlynningu eftir þörfum hvers og eins með áherslu á vellíðan og lífsgæði. Öldrunarheimilin eru með fjölmennari vinnustöðum Akureyrarbæjar og starfa þar um 260 manns í tæplega 220 stöðugildum.

Upplýsingar um ýmsa þjónustu við aldraða.

Heimasíða Öldrunarheimila Akureyrar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan