Sunnutröð verður Búðartröð

Skipulagsráð samþykkti í morgun að götuheiti Sunnutraðar á Akureyri verði breytt í Búðartröð. Ástæðan er fyrst og fremst sú að önnur gata, í Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarsveit, ber sama nafn.

Skipulagsráði barst erindi frá íbúa sem lagði til að nafni götunnar yrði breytt. Sunnutröð í Hrafnagilshverfi væri eldri en sú á Akureyri og þar væru 36 með lögheimili á meðan enginn hefði fasta búsetu við Sunnutröð á Akureyri.

Skipulagsráð tók undir erindið og taldi óheppilegt að göturnar hétu það sama, meðal annars vegna hættu á að viðbragðsaðilar fari á rangan stað í útkalli.

Nafnanefnd lagði til þrjú nöfn og varð Búðartröð fyrir valinu. Stofninn vísar til þess að gatan stendur á barmi Búðargils. Eftir Búðargili rennur Búðarlækur og við hann er kennd Lækjargata.

Gatan sem um ræðir liggur á milli Þórunnarstrætis og Lækjargötu, í næsta nágrenni við Sjúkrahúsið á Akureyri. Við götuna eru hótelíbúðir og hús til leigu. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan