Styrkir vegna Barnamenningarhátíðar

Akureyrarbær óskar eftir umsóknum um styrki vegna viðburða á Barnamenningarhátíð á Akureyri sem fer fram 21.-26. apríl 2020.

Markmiðið er að styðja börn og ungmenni til virkrar þátttöku í menningarstarfi yfir hátíðina og veita þeim tækifæri til að njóta lista og menningar. Vettvangur hátíðarinnar er Akureyri og leitast er við að nýta spennandi og áhugaverð rými þar sem börn geta skapað, notið, sýnt og túlkað. Meginreglan skal vera að ókeypis sé á alla viðburði.

Styrkir eru veittir til einstaklinga, lögaðila, listhópa, fyrirtækja eða stofnana. Tekið skal fram að ekki eru veittir styrkir til hefðbundins stofn- og rekstrarkostnaðar stofnana eða samtaka. Jafnframt eru ekki veittir styrkir til tækjakaupa, útgáfu né stakra ferðastyrkja. Upphæðir verkefnastyrkja geta verið á bilinu 20.000-300.000 kr.

Sótt er um rafrænt í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar hér á akureyri.is. Athugið að einungis er hægt að opna umsóknina með íslykli eða rafrænum skilríkjum. 

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér verklagsreglur og aðrar mikilvægar upplýsingar á barnamenning.is.

Umsóknarfrestur er til og með 4. desember nk.

Nánari upplýsingar veitir Almar Alfreðsson verkefnastjóri hátíðarinnar í netfanginu barnamenning@akureyri.is.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan