Stutt við ferða- og menningarstarfsemi

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða í gær að verja allt að 40 milljónum króna í aðgerðir til að styðja við ferða- og menningarstarfsemi á Akureyri.

Akureyrarstofa hefur undirbúið þessar aðgerðir sem eru tilkomnar vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Algjört hrun hefur orðið í ferðaþjónustu, menningarstarfsemi og viðburðahaldi vegna Covid-19 en á sama tíma eru Íslendingar hvattir til að ferðast innanlands í sumar.

Í fyrsta lagi er um að ræða sérstakt markaðsátak fyrir Akureyri á innanlandsmarkaði þar sem byggt verður á sérstöðunni, það er nálægð við náttúruna og útivistarmöguleika á sama tíma og í boði er iðandi mannlíf, afþreying, verslun og fyrsta flokks þjónusta á öllum sviðum.

Í öðru lagi á að koma á fót styrktarsjóði með breiða skírskotun sem er ætlað að styðja við markaðsátakið og auka framboð á afþreyingu á Akureyri. Markmiðið er að ná til fjölbreytilegs hóps fólks og fyrirtækja í ferðaþjónustu, menningarlífi, íþrótta- og útivistargeira.

Þriðja aðgerðin er aukafjárveiting í menningarsjóð. Hún á að nýtast í skapandi verkefni og menningarviðburði sem þurfa ekki að tengjast beint markaðs- og vöruþróunarátakinu og geta verið verkefni sem koma ekki til framkvæmda fyrr en næsta haust eða vetur.

Næsta skref er að útfæra nánar fyrirkomulag styrktarsjóðsins og móta úthlutunarreglur og stefnt er að því að auglýsa eftir umsóknum á næstu tveimur vikum. Undirbúningur markaðsátaksins er jafnframt í fullum gangi.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan