Stóri hjóladagurinn er á laugardaginn

Mynd: Auðunn Níelsson.
Mynd: Auðunn Níelsson.

Stóri hjóladagurinn er á laugardaginn og þá verður hjóluð saman skemmtileg leið frá Hlíðarbraut niður á Ráðhústorg þar sem boðið verður upp á grillaðar pylsur og létta tónlist af hljómplötum.

Stóri hjóladagurinn er hluti af Evrópskri samgönguviku 2022 en yfirskrift hennar er að þessu sinni Breyttar ferðavenjur. Markmiðið er að hvetja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur og fjölga þeim sem ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur.

Stóri hjóladagurinn á Akureyri hefst á laugardaginn kl. 13 með því að nýr göngu- og hjólastígur við Hlíðarbraut verður formlega vígður. Mælst er til þess að fólk mæti á reiðhjólum sínum á staðinn og hjóli síðan í góðri halarófu niður á Ráðhústorgi undir dyggri leiðsögn fólks úr Hjólreiðafélagi Akureyrar. Lögreglan mun sjá um að hleypa hópnum yfir götur þar sem þess gerist þörf.

Um kl. 14 verður safnast saman á Ráðhústorgi þar sem boðið verður upp á grillaðar pylsur og Dj Vélarnar heldur uppi fjörinu með skemmtilegri tónlist.

Áætlað er að formlegri dagskrá Stóra hjóladagsins ljúki upp úr kl. 15.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan