Stór hluti veðjar á vistvæna bíla

Metanafgreiðsla við Miðhúsabraut
Metanafgreiðsla við Miðhúsabraut

Meirihluti Akureyringa sem tóku afstöðu í nýrri könnun um bifreiðakaup stefnir á að kaupa bíl sem er að hluta eða öllu leyti drifinn áfram af vistvænum orkugjöfum. Rafbílar koma þar helst til greina, en þónokkur fjöldi fólks íhugar að kaupa tengi-tvinnbíl eða metanbíl.

Könnunin var gerð af Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri fyrir Norðurorku. Spurt var um næsta bíl sem fólk telur líklegt að það kaupi með tilliti til orkugjafa. Um 30% stefna á að kaupa bensín eða díselbíl, 23% rafbíl, 18% tengi-tvinnbíl og um 1% metanbíl. 28% svarenda sögðust ekki vita það/tóku ekki afstöðu til spurningarinnar.

Ef einungis er litið til þeirra sem tóku afstöðu kemur í ljós að 59% hugsa sér að kaupa næst bíl sem drifinn er áfram af vistvænum orkugjöfum; rafbíl, tengi-tvinnbíl eða metanbíl. 41% telja líklegt að bensín eða díselbíll verði næst fyrir valinu.

Þriðjungur þeirra sem tóku afstöðu veðja á rafbíl, fjórðungur á tengi-tvinnbíl en aðeins tæp 2% á metanbíl. Þessar niðurstöður ríma við nýja frétt þar sem kemur fram að ríflega sex þúsund fleiri rafbílar en metanbílar séu í umferð hér á landi. Haft er eftir Sigurði Inga Friðleifssyni, framkvæmdastjóra Orkuseturs, að það sé í raun ótrúlegt að ekki fleiri kjósi metan. „Bílarnir eru ódýrari, eldsneytið ódýrara, þetta er framlag inn í loftslagsbaráttuna og við erum að skipta út óhreinum erlendum orkugjafa yfir í hreinan innlendan orkugjafa,“ segir Sigurður í samtali við RÚV.

Heilt yfir benda niðurstöður könnunarinnar til þess að stór hluti Akureyringa sé jákvæður gagnvart því að skipta yfir í umhverfisvænni bíla.
Könnunin var eins og áður sagði framkvæmd af Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Hún var send á netföng 1.055 einstaklinga sem skráðir eru á Akureyri. 614 svöruðu könnuninni og telst svarhlutfall því vera 58%.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan