Stöðumat vegna stjórnsýslubreytinga

Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Stöðumat vegna stjórnsýslubreytinganna sem tóku gildi 1. janúar 2017 voru kynntar í bæjarráði í dag. Markmiðið með stöðumatinu er að draga fram hvað gengið hefur vel og hvar þarf að gera betur svo að tilgangur breytinganna nái fram að ganga en helsta markmiðið var að einfalda stjórnsýsluna í þeim tilgangi að efla þjónustu við bæjarbúa.

Upplýsingum um stöðu innleiðingar var safnað með viðtölum við fulltrúa í innleiðingarhópi, stjórnendur og með spurningakönnun fyrir hóp starfsmanna og kjörinna fulltrúa. Helstu niðurstöðum matsins eru þær að starfsfólk hafi almennt verið þeirrar skoðunar að breytinga hafi verið þörf og að langflestir starfsmenn séu jákvæðir, trúir vinnustaðnum og hafi verið tilbúnir í verkefnið. Bæjarstjórnin stóð einnig heilshugað að baki verkefninu þó að sjónarmið hafi verið mismunandi. Innleiðingin gekk hvað best á samfélagssviðinu þar sem viðmælendur voru ánægðir og tilbúnir í breytingar.

Sviðsstjórum var falin mikil ábyrgð við innleiðinguna og kom fram að leiðsögnin við innleiðinguna hefði mátt vera skýrari þó svo að stjórnendur hafi haft aðgang að aðstoð og stuðningi frá miðlægri stjórnsýslu. Mikið samráð var viðhaft áður er hafist var handa við breytingarnar og rætt við tugi starfsmanna og stjórnenda og starfandi innleiðingahópur með fulltrúa starfsmanna á hverju sviði við innleiðinguna. Þrátt fyrir það komu fram vísbendingar um að gera hefði mátt betur varðandi samráð og upplýsingagjöf um að koma markmiðum breytinganna skýrara á framfæri og verður unnið með þann í framhaldinu.

Breytingarnar hafa sumsstaðar haft þau áhrif að starfsfólk upplifði aukið álag en mikilvægt er að hafa í huga að aðeins er liðið um ár frá því að innleiðingin hófst og er viðbúið að á næstu misserum aukist sátt og að samþætting verkefna muni ganga betur.

Framundan er að vinna markvisst með niðurstöður stöðumatsins og kynna þær fyrir sviðsstjórum, öðrum stjórnendum og stofnunum sem óska eftir upplýsingagjöf og verður sú vinna í höndum verkefnastjóra.

Hér má sjá stöðumatsúttektina sem gerð er af Róbert Ragnarssyni ráðgjafa.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan