Stefnur bæjarins kynntar

Sviðsmyndir af atvinnulífinu á Akureyri árið 2030. Mynd úr atvinnustefnu Akureyrar bls. 28.
Sviðsmyndir af atvinnulífinu á Akureyri árið 2030. Mynd úr atvinnustefnu Akureyrar bls. 28.

Akureyrarbær stendur um þessar mundir fyrir opnum kynningum á helstu stefnum sem bæjarstjórn hefur samþykkt um hina ýmsu starfssemi og málaflokka.

Í þessari viku fór Þórgnýr Dýrfjörð deildarstjóri Akureyrarstofu yfir helstu atriðin í atvinnustefnu Akureyrar sem samþykkt var á árinu 2014 og gildir til ársins 2021. Í stefnunni er hlutverk sveitarfélagsins í atvinnumálum skilgreint og á það að snúa sem mest að því tryggja samkeppnisstöðu þess svo sem með því að tryggja gæði skólastarfs og grunnþjónustu, sem og með því að stuðla að fjölbreyttum möguleikum í íþrótta- og menningarlífi. Þá ber sveitarfélaginu að sjá til þess að skipulag, samgöngur og rafmagns-, vatns-, gagna- og fráveitur þróist í takt við vöxt og möguleika samfélagsins.

Sérhæft hlutverk sveitarfélagsins er annars vegar falið í gagnaöflun um atvinnulíf og búsetu sem birt eru opinberlega í samvinnu við fagaðila og hins vegar í skipulögðum og upplýsandi samskiptum við samtök hagsmunaðila í atvinnulífinu. Sveitarfélagið getur tímabundið tekið þátt í atvinnuþróunarverkefnum og þá fyrst og fremst í gegnum Atvinnuþróunarfélag Akureyrar.

Við gerð atvinnustefnunar á árunum 2013 og 2014 voru skilgreindir aðaldrifkraftar atvinnulífs næsta einn og hálfan áratuginn: Þróun menntunar og þróun í nýtingu náttúrulegra auðlinda. Þá voru dregnar upp fjórar ólíkar sviðsmyndir í takt við þróun hvors þáttar. Gaman er að lesa yfir lýsingu á sviðsmyndunum í viðauka með stefnunni (sjá hlekk neðar).

Málaflokkar stefnunnar eru sex og sett markmið og skilgreind verkefni í hverjum þeirra:

  1. Rannsóknir og menntun
  2. Ferðaþjónusta, verslun og almenn þjónusta
  3. Stjórnsýslan og stuðningsstofnanir
  4. Iðnaður, sjávarútvegur og hefðbundnar atvinnugreinar
  5. Menning og skapandi greinar
  6. Lýðheilsa, heilbrigði og umhverfismál

Fram kom í máli Þórgnýs að stjórn Akureyrarstofu hefur ákveðið að fara yfir og endurskoða eftir þörfum verkefnakafla stefnunnar sem og að vinna nýja stöðugreiningu.

Atvinnustefna Akureyrarbæjar 2014-2021.

Næsta kynning verður á mannauðsstefnu Akureyrarbæjar og fer fram í húsnæði Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar að Þórsstíg 4, þann 30. október kl. 12.15.

Allir eru hjartanlega velkomnir.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan