Stefnt að uppbyggingu í miðbænum hið fyrsta

Akureyrarbær kynnir í dag tillögur að breytingum á miðbæjarskipulagi. Tillögurnar byggja á niðurstöðum þverpólitísks stýrihóps með fulltrúum allra flokka í bæjarstjórn. Stefnt er að því að hefja uppbyggingu sem allra fyrst.

Skipulagsráð samþykkti í fyrra að gera breytingar á deiliskipulaginu sem tók gildi 2014. Svæðið sem breytingarnar ná til afmarkast við Glerárgötu, Kaupvangsstræti, Skipagötu, Hofsbót og Strandgötu.

Leiðarljós núverandi skipulags eru óbreytt. Markmiðið er sem fyrr að nýta betur opið landrými á milli Skipagötu og Glerárgötu með nýjum húsaröðum, stækka þannig miðbæinn og bæta tengingu við höfnina og Hof með rúmgóðum austur-vestur gönguásum.

Helstu breytingar í stuttu máli: 

  • Glerárgata verður áfram 2+2 vegur í núverandi legu, en gert er ráð fyrir þrengingu á einum stað með veglegri gönguþverun.
  • Þar sem ekki er gert ráð fyrir færslu Glerárgötu minnka lóðir og byggingarreitir við Skipagötu og Hofsbót.
  • Lagt er til að hluti Skipagötu verði einstefna til suðurs og að sama gildi um Hofsbót frá Skipagötu að Strandgötu.
  • Gert er ráð fyrir nýjum og afmörkuðum hjólastíg eftir Skipagötu sem og reiðhjólastæðum og -skýlum fyrir almenning í miðbænum, auk þess sem kvöð er sett um reiðhjólageymslur í öllum nýjum byggingum innan svæðisins.
  • Gerð er krafa um að á jarðhæð nýrra bygginga sem snúa að Skipagötu, Hofsbót og austur-vestur gönguásum verði lifandi starfsemi, svo sem verslanir, veitingastaðir, þjónusta og menningarstarfsemi sem stuðli að fjölbreyttu miðbæjarlífi.

Hér að neðan er hægt að nálgast tillöguna nánar:

Uppdráttur

Greinargerð

Skýringaruppdráttur

Myndræn kynning

Önnur gögn:

Greining á bílastæðum í miðbæ Akureyrar

  

Íbúar eru hvattir til að kynna sér tillöguna og fyrirliggjandi hugmyndir að uppbyggingu og koma á framfæri ábendingum og athugasemdum. Það er hægt að gera með því að smella á hnappinn hér að neðan. Athugasemdafrestur er til og með 6. janúar næstkomandi. 

UPPFÆRT: Lokað hefur verið fyrir ábendingar.  

Við viljum heyra frá þér 

Ábendingum er einnig hægt að koma á framfæri í gegnum netfangið skipulagssvid@akureyri.is eða skriflega til skipulagssviðs í Ráðhúsi Akureyrar, Geislagötu 9. Vegna aðstæðna er fólk þó eindregið hvatt til þess að nota rafrænar leiðir. 

Persónuupplýsingar sem fylgja athugasemdum við skipulag, s.s. kennitala, nafn og netfang eru aðeins nýttar í þeim tilgangi að vinna úr athugasemdum og auðkenna sendanda. Sjá nánar um meðferð persónuupplýsingar hjá Akureyrarbæ hér.
Athugasemdir teljast til opinberra gagna. Vakin er athygli á því að nöfn þeirra sem senda athugasemdir koma fram í fundargerðum skipulagsráðs sem eru birtar á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Spurt og svarað:

Af hverju er ekki byggt í samræmi við gildandi deiliskipulag?

Forsenda uppbyggingar í samræmi við gildandi deiliskipulag er að fyrst verði farið í framkvæmdir við að breyta legu Glerárgötu. Ekki hefur náðst samkomulag um að fara í þær framkvæmdir og þess vegna var ákveðið að skoða hvort finna mætti aðra lausn á málinu til að koma uppbyggingu af stað.

Er verið að kollvarpa núverandi skipulagi?

Í breytingunni er haldið í þá grunnhugmyndafræði gildandi deiliskipulags um að nýta það opna rými sem er á milli miðbæjarins og Pollsins, stækka miðbæinn og stuðla að jákvæðum tengslum við höfnina með nýjum húsaröðum milli Skipagötu og Glerárgötu. Áfram verður áhersla á að skapa rúmgóða austur-vestur gönguása milli nýrra bygginga á svæðinu með góðum og öruggum tengingum yfir Glerárgötu að hafnarsvæðinu og Hofi.

Til hvaða svæðis nær breytingin? 

Það svæði sem deiliskipulagsbreytingin nær til afmarkast af Glerárgötu, Kaupvangsstræti, Skipagötu, Hofsbót og Strandgötu.

Gert er ráð fyrir að á næsta ári verði farið í endurskoðun á skipulagi við Torfnunefsbryggju og umhverfis Hof í samráði við Hafnasamlag Norðurlands auk þess sem taka á svæði umhverfis Ráðhúsið til endurskoðunar.

Er verið að taka flest bílastæði í miðbænum undir byggingar?

Það er rétt að deiliskipulagsbreytingin gerir ráð fyrir að núverandi bílastæði á svæði milli Skipagötu og Glerárgötu verði aflögð vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar en það er ekki breyting frá gildandi skipulagi. Heildarfjöldi bílastæða í miðbænum mun þó ekki minnka þar sem skipulagið gerir ráð fyrir fjölgun stæða á öðrum svæðum, t.d. við Hof og Hólabraut neðan við Brekkugötu.

Í tengslum við skipulagsvinnuna var farið í greiningu á fjölda og nýtingu bílastæða á miðbæjarsvæðinu og kom þá í ljós að á mörgum svæðum rétt við miðbæinn eru fjölmörg illa nýtt stæði og að yfirleitt eru á bilinu 540 – 900 bílastæði laus á hverjum tíma. Má þar t.d. nefna bílastæði við Túngötu (Landsbankann), Austurbrú, neðan við Samkomuhúsið, við Hof og Strandgötu. Er gert ráð fyrir að þessi svæði geti tekið á móti aukinni nýtingu þegar uppbygging við Skipagötu og Hofsbót hefst.

Hvers vegna er verið að leyfa flöt þök í stað hallandi þaka?

Í miðbæ Akureyrar í dag eru fjölmargar mismunandi útgáfur af þakformi húsa en við Skipagötu og Hofsbót eru flest núverandi hús með engum eða litlum þakhalla á meðan hús sunnan Kaupvangsstrætis eru flest með hallandi þaki (rishæðum). Ný hús við Austurbrú taka mið af útliti húsa á því svæði og ákveðið var að ný byggð milli Skipagötu og Glerárgötu myndi taka mið af núverandi húsum á því svæði, þ.e. vera með lítinn eða engan halla á þökum.

Hvernig er tekið tillit til hjólandi og gangandi í breytingu á deiliskipulagi?

Til að skapa öflugan og aðlaðandi miðbæ er mikilvægt að bæta aðgengi fyrir gangandi og hjólandi og er það eitt af meginmarkmiðum deiliskipulagsins. Verður það gert með breiðum og góðum gangstéttum, aðlaðandi gönguásum án bílaumferðar auk þess sem gert er ráð fyrir sérafmörkuðum hjólastíg í gegnum Skipagötu til samræmis við nýlega samþykkt Stígaskipulag bæjarins.

Hvernig starfsemi verður í nýjum húsum?

Gert er ráð fyrir blandaðri nýtingu íbúða og atvinnustarfsemi án þess að settir séu nákvæmir skilmálar um hvernig sú nýting skiptist. Þó er sú kvöð að atvinnustarfsemi verði á neðstu hæð húsa við Skipagötu og Hofsbót og við gönguása.

Ferli skipulagsbreytingarinnar – hvað gerist næst og er búið að ákveða hvernig skipulagið verður?

Nú er verið að kynna drög að breytingu á deiliskipulagi og verður tillagan til kynningar fram yfir áramót, til 6. janúar, og gefst íbúum og öðrum hagsmunaaðilum tækifæri til að koma með athugasemdir og ábendingar. Eftir áramót mun skipulagsráð taka málið upp að nýju og verður þá skoðað hvort að tilefni sé til að gera breytingar á tillögunni. Þegar niðurstaða þeirrar yfirferðar liggur fyrir verður deiliskipulagsbreytingin auglýst aftur með formlegum 6 vikna fresti til að gera athugasemdir.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan