Staðsetning Grímseyjar og fuglalíf heilla

Nýja táknið fyrir heimsskautsbauginn í Grímsey, Orbis et Globus.
Nýja táknið fyrir heimsskautsbauginn í Grímsey, Orbis et Globus.

Árið 2018 hefur Akureyrarstofa, með stuðningi frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra, leitt vinnu við undirbúning markaðssetningar Grímseyjar með áherslu á erlenda ferðamenn. Kynningarefnis hefur verið aflað, bæði myndbanda og ljósmynda, um leið og farið var í greiningu á verðmætasta markhópnum fyrir eyjuna. Það var meðal annars gert með viðtölum við fólk sem starfar við ferðaþjónustu í Grímsey og með því að leggja viðhorfskönnun fyrir ferðafólk á leið úr eyjunni.

Rannsóknamiðstöð ferðamála vann skýrslu úr niðurstöðum könnunarinnar og sýna helstu niðurstöður að Bandaríkjamenn virðast vera mjög áhugasamir um Grímsey, en þeir voru fjölmennasta þjóðernið sem tók þátt í könnuninni. Má því leiða að því líkum að Bandaríkin séu vænlegasta markaðssvæðið fyrir Grímsey. Gestir þaðan eru afar ánægðir með heimsókn til Grímseyjar og þeir tilheyra hærri tekjuhópum en almennt virðist vera meðal Evrópubúa. Langflestir sem heimsækja eyjuna stansa stutt eða aðeins dagpart. Það sem helst vekur hrifningu ferðafólks er lega eyjunnar við heimsskautsbaug og fuglalífið, þá sérstaklega lundinn.

Meginmarkmið markaðsátaksins er að auka straum ferðamanna til Grímseyjar og styrkja stoðir ferðamennsku þar. Brýnt er að blása til öflugrar sóknar sem verða mætti til að styrkja atvinnulíf í eyjunni, fjölga störfum í ferðamennsku og treysta búsetu við heimskautsbauginn. Næsta skref er að í upphafi nýs árs verða birtar auglýsingar á grundvelli þeirra upplýsinga sem hefur verið aflað. Ljósmyndum og örstuttum myndböndum verður deilt á samfélagsmiðlum og víðar með það fyrir augum að vekja athygli og áhuga réttu markhópanna á kostum og sérstöðu Grímseyjar.

Hér má sjá dæmi um myndband sem notað verður til markaðssetningar á Grímsey.

Verkefnið var sem áður segir styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan