Staða kvenna á Norðurslóðum

Arctic Frontiers ráðstefnan verður haldin í Tromsø í Noregi 1.-4. febrúar en fimmtudaginn 28. janúar verður boðið upp á málstofu í tengslum við ráðstefnuna undir heitinu „Jafnrétti kynjanna og félagsleg sjálfbærni á Norðurslóðum." Ásthildur Sturludóttir, formaður Arctic Mayors' Forum, AMF (Samtaka bæjar- og sveitarstjóra á Norðurslóðum) og bæjarstjóri á Akureyri, situr fyrir svörum í pallborði ásamt með öðrum. Ráðstefnan og málþingið fara fram í gegnum fjarfundabúnað og er öllum heimil þátttaka.

Á málþinginu verður kastljósinu einkum beint að stöðu menntaðra kvenna á strjálbýlum svæðum Norðurslóða sem eiga í erfiðleikum með að finna störf við hæfi á meðan karlarnir starfa að frumatvinnuvegum, gjarnan við veiðar eða landbúnað, og sjá litla ástæðu til að sækja sér menntun. Konurnar eiga því oft og tíðum aðeins tveggja kosta völ; að flytjast í burtu eða gerast heimavinnandi húsmæður. Hvað er til ráða? Hver er staða kvenna á Norðurslóðum? Eru störf án staðsetningar í stafrænum veruleika e.t.v. lausnin? Hefur Covid-19 á einhvern hátt breytt afstöðu okkar til slíkra lausna? Eða ætti fólk einfaldlega að flytja í þéttbýlið svo gera megi Norðurslóðir að friðlandi eða þjóðgarði?

Embla Eir Oddsdóttir, forstöðumaður Norðurslóðanets Íslands, stýrir umræðum en þátt í pallborðsumræðum taka, auk Ásthildar Sturludóttur, Charlotte Ludvigsen, stjórnarmaður í AMF og bæjarstjóri í Sermersooq á Grænlandi, og Victor Norman, formaður nefndar um lýðfræðilega þróun í dreifðum byggðum Noregs.

Þátttaka í málþinginu er ókeypis en þátttakendur verða að skrá sig HÉR fyrir kl. 12 á hádegi fimmtudaginn 28. janúar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan