Spurt og svarað um fjárhagsáætlun

Formenn ráða sátu fyrir svörum á fundinum í Brekkuskóla.
Formenn ráða sátu fyrir svörum á fundinum í Brekkuskóla.

Í síðustu viku stóð Akureyrarbær fyrir íbúafundi í Brekkuskóla undir yfirskriftinni „hvert fara peningarnir okkar?“ Tilgangur fundarins var að kynna á mannamáli fjárhagsáætlun næsta árs, sem og að ræða um stærstu verkefni og framkvæmdir framundan á vegum Akureyrarbæjar.

Fundargestum gafst kostur á að spyrja og ræða við formenn ráða. Bæði var hægt að bera fram spurningar munnlega úr sal eða nota síma með vefsíðunni www.sli.do. 

Fram komu fjölmargar góðar spurningar og gafst ekki tími til að svara þeim öllum. Til að bregðast við því, og upplýsa þá sem ekki komust, hafa hér verið tekin saman skrifleg svör bæjarfulltrúa meirihlutans við þeim spurningum sem ekki tókst að svara, auk nokkurra annarra sem voru mikið ræddar á fundinum.

1. Á Punkturinn og tómstundastarf eldri borgara að komast fyrir í húsnæði Víðilundar? Áherslur í starfi Punktsins munu breytast með flutningi í Víðilund og taka mið af því húsnæði sem er til staðar. Það eru samlegðartækifæri bæði hvað varðar starfsfólk og búnað. Í skoðun er að barnastarf á vegum Punktsins verði fært í skólana. Punkturinn mun ekki bjóða upp á námskeið fyrir fullorðna að kvöldi til þannig að við teljum að það sem eftir stendur í starfsemi Punktsins og tómstundastarf eldri borgara komist fyrir í húsnæði Víðilundar. 

2. Nú er það ekki alveg óþekkt að framkvæmdir fari örlítið fram úr áætlun. Verður einhver áhersla lögð á aukið eftirlit með framvindu kostnaðar við framkvæmdir? Í ljósi umræðu um Bragga í Nauthólsvík og fleiri mál þá liggur fyrir að eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga mun veita aukið aðhald. Við teljum þessi mál í nokkuð góðu horfi á Akureyri. Það má nefna þrjár algengar ástæður fyrir því að verk fara fram úr áætlun. 1. Verðlagshækkun á framkvæmdatímanum sem er algeng ca. 10%. 2. Ákveðið á framkvæmdatímanum að auka við verkið t.d. endurnýja þakið sem ekki var ætlunin upphaflega, en þá er niðurstaðan líka betra mannvirki en áætlað var. 3. Versti þátturinn er svo þegar kostnaður við tiltekna þætti er vanmetinn eða jafnvel gleymist. 

3. Er sameining sveitafélaga kostur til ađ ná fram aukinni hagkvæmni? Já, sameining sveitarfélaga er kostur til að ná fram auknu hagræði í rekstri sveitarfélaga en ekki síður það sem vegur þyngra í okkar huga er að efla þjónustu við íbúa. Nú liggur þar að auki fyrir frumvarp til laga um eflingu sveitarstjórnarstigsins þar sem töluverðir fjárhagslegir hvatar til sameiningar eru fyrir hendi. Hins vegar skiptir ákaflega miklu máli að finna ásættanlegar leiðir til þess að ná fram þessu hagræði og betri þjónustu án þess að skaða samfélög og menningu ólíkra svæða. Því verður til dæmis spennandi að fylgjast með útfærslum á heimastjórnum líkt og fyrirhugað er að gera á Austurlandi.

4. Má ekki breyta sorptunnu kerfi í átt til flokkunar við heimahús? Megin markmið okkar á næstu árum er að draga úr urðun. Það skýtur því svolítið skökku við að í dag er auðveldara að losa sig við almennt sorp til urðunar (henda út í tunnu) heldur en að losa sig við flokkaða ruslið (fara með á næstu grenndarstöð). Að því leyti gæti – já - verið áhugavert að gefa færi á að hirða flokkað plast, pappír osfrv. við heimahús. Vandinn er kannski sá að þetta eru mjög margir flokkar og mikil fyrirferð á þessu. Ákveðinn millivegur er "Endurvinnslutunnan" sem reyndar þarf að greiða aukalega fyrir. Nú er (meðal annars) verið að kanna hvort mögulegt sé að fara aðra leið, sem er að fjölga grenndarstöðvum (þá verður styttra að fara fyrir marga) og taka þar einnig á móti lífrænu og almennu. Þá þyrfti sorpbíllinn ekki að fara inn í hverja húsagötu með tilheyrandi kostnaði, mengun og ónæði. 

5. Hver eru helstu tækifæri til ađ spara í rekstri bæjarins? Tækifæri til sparnaðar liggja helst í að draga úr rekstri sem ekki er lögbundinn í rekstri sveitarfélagsins.

6. Hver er stefnan í leikskólamálun? Stefnt er að því haustið 2021 að öll börn á Akureyri, 12 mánaða og eldri, fái boð um leikskólavist eða geti nýtt sér aðrar leiðir t.d. dagforeldri. Aukin niðurgreiðsla til foreldra barna sem hafa náð 16 mánaða aldri og hafa ekki fengið boð um innritun í leikskóla tók gildi í haust. Einnig er stefnt að því að niðurgreiða áttunda tímann hjá dagforeldri sem mun þá taka í gildi í byrjun árs 2020. Þetta er í samræmi við nýja skýrslu, Brúum bilið, sem íbúar eru hvattir til að kynna sér. 

7. Kæmi til greina að rukka í strætó og bæta leiðakerfi og stytta biðtíma? Það hafa ekki verið nein áform um að rukka í strætó. Hins vegar stendur til að endurskoða leiðakerfið í samráði við íbúa, með það fyrir augum til dæmis að tryggja að það henti augljósum markhópum eins og framhaldsskólanemum og fjölmennum vinnustöðum. Einnig er áhugi á að kanna hvort mögulegt sé að stytta ferðatíma og auka tíðni, með að gera leiðirnar beinni og markvissari. Það gæti hins vegar kostað á móti að í einhverjum tilvikum myndi leið frá heimili að næstu stoppistoð lengjast.  

8. Hversu stórt hlutfall af tekjum kemur frá ferðaþjónustu?  Því miður er erfitt að greina úr hvaða starfsgreinum útsvarstekjur koma en ljóst er að aukin umsvif ferðaþjónustu á svæðinu hefur haft áhrif á útsvarstekjur. 

9. Er rétti tíminn núna að spara í rekstri Punktsins, oft á tíðum athvarf þeirra sem minna mega sín? Það stendur ekki til að hætta að þjónusta þá sem minna mega sín. Þeir munu áfram geta sótt félagsstarf eða tómstundir í Víðilundi. 

10. Hversu lengi þarf öldruð manneskja (aðflutt) að búa hér til að komast inn í kerfið? Þegar einstaklingur flytur í bæinn úr öðru sveitarfélagi hefur viðkomandi öll þau réttindi sem hinn almenni borgari hefur.

11. Er eðlilegt að biðtími eftir MST séu 2 mánuðir í ljósi þess að MST er fyrsta hjálp barna sem eru byrjuð að þróa með sér fíkniefnavanda? MST er fjölkerfameðferð og mikilvægt meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda. Biðtími eftir MST er áætlaður um einn mánuður. Það fara nokkrar vikur í að vinna umsókn áður hún er send. Biðtími var lengri en nú er búið að bæta í fjölda MST teyma þannig að tekist hefur að stytta biðtíma. 

12. Hvað er bærinn að gera til að bæta flugsamgöngur? Bæjarstjórn Akureyrar hefur fundað með ráðherrum, þingmönnum og forsvarsmönnum Isavia og ýtt á að ríkisvaldið, sem fer með rekstur Akureyrarflugvallar, setji meira fjármagn til uppbyggingar. Akureyrarbær hefur sett á áætlun fjármagn til þess að færa göngu/reiðstíg sunnan flugvallar, sem þykir nauðsynlegt vegna nýs aðflugsbúnaðar. Bæjarstjórn hefur um áraraðir sett fjármagn í Air66, en því verkefni er ætlað að ná til flugfélaga víðs vegar um heim, með það fyrir augum að koma á beinu millilandaflugi. Þá hefur bæjarstjórn ávallt lagt áherslu á við ráðamenn, að flug til Grímseyjar, Þórshafnar og Vopnafjarðar haldist óbreytt eða verði aukið þar sem Akureyri er mikilvægur þjónustukjarni fyrir allt norðausturland. 

13. Hvað með húseignir, hver er staðan á sölu húseigna? Við höfum verið að skoða möguleika á sölu húseigna sem ekki eru að nýtast í rekstri bæjarins en ekki liggur fyrir nein ákvörðun um sölu ef frá er talin sala á Sigurhæðum sem er í endurskoðun.

14. Hvað kostaði Velferðarstefna Akureyrarbæjar og er hún bara pappír sem verður geymdur í skúffu? Hún kostaði vinnu við stöðumat á málaflokkum stefnunnar og vinnu með helstu hagsmunaaðilum. Hún er alls ekki geymd ofan í skúffu og unnið eftir aðgerðaáætlun sem stefnunni fylgir að mörgum mikilvægum málefnum. – Heimir Haraldsson, formaður velferðarráðs.

15. Hvað er bærinn að gera til að markaðsetja sig sem góðan stað til að búa á til dæmis fyrir barnafólk? Markaðssetning skiptir miklu máli og þarf að vanda til verka þegar ráðist er í slíkt. Ákveðið var að byrja á því að klára upplýsingastefnu bæjarins og var hún samþykkt í bæjarstjórn í upphafi árs. Í henni kemur m.a. fram að sveitarfélaginu ber að hafa frumkvæði að miðlun upplýsinga um starfsemi sína og að rafræn stjórnsýsla verði bætt t.a.m. með íbúagátt. Þá hefur verið ráðinn verkefnastjóri upplýsingamiðlunar sem hefur bæði stutt önnur svið og stofnanir við að auka upplýsingagjöf og sýnileika, en einnig hefur upplýsingagjöf á heimasíðu og samfélagsmiðlum aukist til muna. Varðandi markaðssetningu á þjónustu við börn sérstaklega, þá eru nokkur verkefni í vinnslu sem mikilvægt er að vekja sérstaka athygli á. Þar má nefna nýútkomna skýrslu um hvernig á að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, en gera má ráð fyrir því að börn allt niður í 12 mánaða aldur fái boð um leikskólavist á Akureyri á næstu þremur árum. Þá er vinna í fullum gangi varðandi að skapa samfellu í skóla og frístundastarfi barna, vegna þess verkefnis hefur verið ráðinn verkefnastjóri og ætti tilraunaverkefni að hefjast á nýju ári. Þá er stórt verkefni í vinnslu sem tengist því að Akureyrarbær sé barnvænt sveitarfélag og horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í því samhengi. Öllu þessu og fleira til þurfum við að koma vel á framfæri þegar ráðist verður í markaðssetningu á íbúamarkaði.

16. Er það rétt skilið að rekstur Hlíðarfjalls standi undir sér? Nei. Rekstrarkostnaður aðalsjóðs af rekstri Hlíðarfjalls á árinu 2020, að teknu tilliti til tekna, er áætlaður 130 milljónir króna. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan