Skýrsla bæjarstjóra 7/11-20/11 2018

9. nóvember: Punkturinn skoðaður í heimsókn í Rósenborg. Frá vinstri: Halla Birgisdóttir Ottesen, um…
9. nóvember: Punkturinn skoðaður í heimsókn í Rósenborg. Frá vinstri: Halla Birgisdóttir Ottesen, umsjónarmaður Punktsins, Alfa Aradóttir, deildarstjóri forvarna og æskulýðsmála, Ásdís Þorvaldsdóttir sem notar aðstöðuna á Punktinum, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, og Kristinn Jakob Reimarsson, sviðsstjóri samfélagssviðs Akureyrarbæjar.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.
Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi.

Flutt á fundi bæjarstjórnar 20. nóvember 2018

7. nóvember: Heimsókn á leikskólann Pálmholt, í þessi tvö hús og annað þeirra sem er elsta leikskólabygging bæjarins. Þar er Drífa Þórarinsdóttir nýlega tekin við sem leikstjórastjóri. Ég tek hatt minn ofan fyrir henni og starfsfólkinu með þá miklu útsjónarsemi sem þar er sýnd við nýtingu á rými.

7. nóvember: Aðalfundur Flokkunar þar sem hittust sveitarstjórar sveitarfélaganna við Eyjafjörð.

8. nóvember: Fundur með félagsmála- og jafnréttisráðherra þar sem undirrituð ásamt sviðsstjóra búsetusviðs fóru yfir málefni varðandi öryggisgæslu og rekstur dagþjónustuúrræða fyrir fólk með geðrænan vanda.

9. nóvember: Heimsókn á leikskólann Lundarsel þar sem unnið hefur til lengri tíma með heimspeki og ég vil líka minnast á bók um jafnrétti sem unnin var af starfsfólkinu. Það væri mikill akkur í því ef hægt væri að gefa þá bók út.

9. nóvember: Heimsókn í Rósenborg þar sem farið var um húsið og í lokin gott spjall við starfsfólk sem vinnur með börnum og unglingum og var umræðuefnið sá harði heimur sem ungmenni standa frammi fyrir og hvað við getum gert, ekki bara sem sveitarfélag heldur líka samfélag, til að standa við bakið á unga fólkinu okkar.

9. nóvember: Fundur með Evu Egesborg nýja danska sendiherranum á Íslandi og í kjölfarið var opnun ljósmyndasýningar á Glerártorgi í tilefni af 100 ára fullveldisafmælis Íslands.

13. nóvember: Fundur með umhverfis- og samgöngunefnd þar sem til umræðu var tillaga til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019 -2023.

13. nóvember: Fundur/foreldrafræðsla í Brekkuskóla undir yfirskriftinni "Foreldrar skipta mestu máli" forvarna- og félagsmálaráðgjafar Akureyrarbæjar efndu til. Mætti þar bæði sem foreldri og bæjarstjóri.

15. nóvember: Undirskrift á listsjóðnum Verðandi með Þórleifi Birni Stefánssyni formanni stjórnar Menningarfélagsins Hofs og Þuríði Kristjánsdóttur framkvæmdastjóra Menningarfélags Akureyrar. Sjóður sem gefur skapandi fólki tækifæri til að nýta frábær húsakynni Mak til að fremja list sína. Umsóknarfrestur er til 2. desember og er sótt um á heimasíðun Menningarfélagsins mak.is

19. nóvember: Fundur með fulltrúum ISAVIA þar sem farið var yfir stöðuna og framtíðarsýn fyrir flugvöllinn á Akureyri.

19. nóvember: Fundur með Jacob Isbosethsen aðalræðismanni Grænlands á Íslandi og fleiri aðilum sem tengjast Norðurslóðamálum. Fórum yfir sameiginlega hagsmuni og hvernig löndin geta unnið að sameiginlegum markmiðum.

19. nóvember: Alþjóðadagur barna er í dag og var boðið upp á svokallað Réttindaspjall á Amtsbókasafninu þar sem þrír ungir piltar tóku þar til máls og var mjög áhugavert að heyra það sem þeir höfðu að segja.

19. nóvember: Starfsdagur stjórnenda fór fram í Listasafninu á Akureyri og tókst vel til. Það er mikill mannauður sem býr í stjórnendum Akureyrarbæjar.