Skýrsla bæjarstjóra 6/10-19/10/2021

Frá málstofu um það sem læra má af Covid-19 faraldrinum sem haldin var á Arctic Circle og skipulögð …
Frá málstofu um það sem læra má af Covid-19 faraldrinum sem haldin var á Arctic Circle og skipulögð af Arctic Mayors' Forum.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni. Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 19. október 2021.

Gerð fjárhagsáætlunar stendur nú sem hæst og er í mörg horn að líta enda hefur furðulegt árferði vegna heimsfaraldurs sett strik í reikninginn og sniðið okkur ansi þröngan stakk. Ég hef á síðustu vikum setið ófáa fundi með sviðsstjórum og öðrum lykilstarfsmönnum sveitarfélagsins þar sem rýnt er í alla þætti í rekstrinum en þeirri vinnu þarf að vera lokið á allra næstu vikum. Meðfram vinnu við fjárhagsáætlun er unnið áfram að skipulagsbreytingum sem komnar verða í gagnið um áramót.

Þriðjudaginn 12. október fengu sviðsstjórar kynningu á fjölmiðlaumfjöllun um Akureyrarbæ síðasta árið og var ánægjulegt hversu fátt þar kom á óvart, þ.e.a.s. fréttaumfjöllun um bæinn er með örfáum undantekningum afar jákvæð.

Miðvikudaginn 13. október áttum við fund með fulltrúum frá Landsneti um Blöndulínu 3.

Og undir lok síðustu viku og um nýliðna helgi sat ég við Hringborð Norðurslóða, eða Arctic Circle, sem haldið var í Reykjavík. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að Akureyrarbær haldi á lofti hlutverki sínu sem miðstöð Norðurslóðastarfs á Íslandi og styrki enn stöðu sína á þeim vettvangi. Ríkisvaldið hefur rennt styrkum stoðum undir þessa stöðu sveitarfélagsins og við þurfum að sýna stefnufestu, einurð og dug, grípa tækifærið og setja fram langtímaáætlun um það hvernig við ætlum að nýta okkur þau tækifæri sem þarna liggja og sækja fram í málefnum Norðurslóða þar sem búa ótal möguleikar til framtíðar.