Skýrsla bæjarstjóra 5/2/2020– 18/2/2020

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi.

Flutt á fundi bæjarstjórnar í Hofi 18. febrúar 2020.

5. febrúar: Fundur í Reykjavík með heilbrigðisráðherra.

6. febrúar: Fundur með Almannavörnum Eyjafjarðar þar sem m.a. var farið yfir almannavarnarástandið sem skapaðist í desember á síðasta ári.

6. febrúar: Ávarpaði góða gesti á opnunarkvöldi Frönsku kvikmyndahátíðarinnar sem fram fór í Borgarbíó en einnig voru kvikmyndirnar sýndar í Menntaskólanum á Akureyri og á Amtsbókasafninu.

7. febrúar: Átti fund með stjórn SSNE vegna ýmissa mála.

8. febrúar: Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra kom norður og skrifað var undir samkomulag um styrk til Akureyrarbæjar til starfsemi Virkisins og er styrkurinn þrjár milljónir króna.

8. febrúar: Heimsótti Starfamessu grunnskólanna sem fram fór í Háskólanum á Akureyri en skipulögð af grunnskólum bæjarins. Þetta er í fimmta skipti sem grunnskólabörnum er boðið upp á slíka kynningu og þetta var virkilega áhugavert og metnaðarfullt.

8. febrúar: Afar falleg stund í Listasafninu á Akureyri þar sem saman komu fyrstu heilavinir landsins en Akureyrarbær er fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að hefja vegferð í átt að samfélagi sem er vinveitt og meðvitað um þarfir einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra. Meðal gesta voru Eliza Reid forsetafrú sem er verndari Alzheimersamtakanna og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og lýstu þau yfir mikilli ánægju með verkefnið og lögðu áherslu á mikilvægi þess að hlúa að þeim sem minna mega sín. Ég vil þakka starfsfólki Öldrunarheimila Akureyrar fyrir sína metnaðarfullu vinnu í samráði við Alzheimersamtökin við að þróa og innleiða þetta mikilvæga verkefni.

13. febrúar: Heimsótti fyrirtækið Thula sem er hugbúnaðarfyrirtæki staðsett í Glerárgötu en fyrirtækið bauð heim eftir framkvæmdir innanhúss.

10-14. febrúar: Í kjördæmaviku þingmanna hitti ég bæði þingmenn okkar kjördæmis og einnig annarra kjördæma sem vildu kynna sér mál sveitarfélagsins. Fór yfir helstu áherslur og baráttumál sveitarfélagsins.

14. febrúar: Fékk heimsókn í ráðhúsið frá 22 hressum börnum af leikskólanum Kiðagili en þau voru að vinna verkefni um bæinn sinn og vildu gjarnan fá að spyrja bæjarstjórann nokkurra spurninga.

17. febrúar: Vinnufundur með meirihluta bæjarstjórnar.

18. febrúar: Fundur með fulltrúum frá Menningarfélagi Akureyrar og samfélagssviði, þar sem menningarsamningurinn við ríkið var til umræðu.

18. febrúar: Sviðsstjórafundur líkt og alla þriðjudaga og að þessu sinni var kynning á kjarasamningum.