Skýrsla bæjarstjóra 19.5.2020 – 2.6.2020

Akureyrarbær hlýtur viðurkenningu UNICEF sem fyrsta Barnvæna sveitarfélagið á Íslandi. Frá vinstri: …
Akureyrarbær hlýtur viðurkenningu UNICEF sem fyrsta Barnvæna sveitarfélagið á Íslandi. Frá vinstri: Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra, Alfa Dröfn Jóannsdóttir, verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags hjá Akureyrarbæ, Hildur Lilja Jónsdóttir, Ari Orrason, Rakel Alda Steinsdóttir og Embla Kristín Blöndal Jóhannsdóttir, fulltrúar ungmennaráðs Akureyrarbæjar og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. Mynd: UNICEF/Steindór.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi.

19. maí var haldinn fjarfundur með stjórnendum sveitarfélaga og öldrunarheimila á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Markmið fundarins var að fá fram upplýsingar um viðhorf og mat sveitarfélaga á stöðu heimilanna og efla samstöðuna þegar kemur að viðræðum við Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðisráðuneytið um yfirtöku rekstursins - en Akureyrarbær er meðal sveitarfélaga sem hefur ákveðið að framlengja ekki samning um rekstur ÖA við Sjúkratryggingar Íslands.

20. maí sat ég aðalfund Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar sem haldinn var í Hörgársveit. Félagið hefur nú í raun runnið saman við önnur í SSNE en því hefur þó ekki verið slitið að fullu.

Mánudaginn 25. maí voru haldnir samráðsfundir í Arctic Mayors Forum þar sem við förum með formennsku. Það voru ánægjulegir og gagnlegir fundir.

26. maí fundaði ég með sviðsstjóra stjórnsýslusviðs um Vinnuskólann og sérstakt atvinnuátak til að mæta afleiðingum Covid-19 faraldursins. Unnið var að tillögu sem lögð var fyrir bæjarráð um tímafjölda í Vinnuskólanum og annað sem þarf að ákveða fyrir sumarið. Tillagan var lögð fyrir bæjarráð tveimur dögum síðar og samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum.

Að morgni 27. maí var ég viðstödd undirritun nýs þjónustusamnings utanríkisráðuneytisins og Háskólans á Akureyri sem ætlað er að efla norðurslóðastarf og sérfræðivinnu háskólasamfélagsins á Akureyri meðan Ísland gegnir formennsku í Norðurskautsráðinu. Þarna er stigið mjög mikilvægt skref sem styrkir enn frekar stöðu Akureyrar sem miðstöðvar norðurslóðastarfs á Íslandi.

Sögulegt augnablik var seinna þann sama dag, miðvikudaginn 27. maí, þegar Akureyrarbær hlaut viðurkenningu UNICEF sem fyrsta Barnvæna sveitarfélagið á Íslandi. Hátíðleg athöfn fór fram á lóðinni við Brekkuskóla. Í viðurkenningunni felast þakkir til sveitarfélagsins fyrir að hafa unnið markvisst að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu og starfsemi bæjarins, með hagsmuni allra barna og ungmenna sveitarfélagsins að leiðarljósi. Ég er ákaflega stolt af þessu skrefi sem starfsfólk sveitarfélagsins hefur undirbúið af kostgæfni með stuðningi Ungmennaráðs bæjarins og fleiri aðila.

Dagurinn eftir, fimmtudagurinn 28. maí, var ekki jafn ánægjulegur og í raun hörmulegur því þá varð stórbruni í Hrísey þegar frystihúsið og stærsti vinnustaðurinn í eyjunni brann. Ég fór ásamt forseta bæjarstjórnar til Hríseyjar um hádegisbil til að skoða aðstæður og ræða við heimamenn. Þetta er mikið áfall fyrir Hríseyinga og alla íbúa sveitarfélagsins.
Talverður tími hefur að undanförnu farið í að undirbúa nauðsynlegar endurbætur á Lundarskóla en vegna þeirra þarf kennsla þriggja til fjögurra árganga í skólanum að færast niður í Rósenborg og hluti þeirra starfsmanna sem þar hafa unnið flytur í Ráðhúsið. Þetta er talsvert rask fyrir alla sem málið varðar en mjög ánægjulegt er að sjá að fólk tekur þessu af æðruleysi staðráðið í að leysa málin og leita lausna.