Skýrsla bæjarstjóra 19/5-1/6/2021

Ásthildur og Jeanette Menzies sem er nýr sendiherra Kanada á Íslandi.
Ásthildur og Jeanette Menzies sem er nýr sendiherra Kanada á Íslandi.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni. Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 1. júní 2021.

Ég stikla nú á stóru í starfi mínu frá því bæjarstjórn kom saman síðast.

Þar er fyrst til að taka að miðvikudaginn 19. maí áttum við formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs, ásamt sviðsstjóra, upplýsandi fund með framkvæmdastjóra Strætó BS, Jóhannesi Rúnarssyni, um almenningssamgöngur.

Því næst var fundað með ráðgjafafyrirtækinu Strategiu um skipulagsbreytingar í stjórnkerfi Akureyrarbæjar og seinna þann sama sat ég aðalfund Hafnarsamlags Norðurlands þar sem hefur heldur betur gefið á bátinn með fáheyrðum samdrætti í heimsfaraldrinum en vonandi horfir það allt til betri vegar.

Miðvikudaginn 26. maí hitti ég ásamt sviðsstjóra skipulagssviðs, forstjóra og framkvæmastjóra útleigusviðs hjá Eik fasteignafélagi en félagið á ýmsar eignir á Akureyri, meðal annars Glerártorgi, og hefur mikinn áhuga á frekari fjárfestingum og uppbyggingu í bænum.

Föstudaginn 28. maí var haldinn fundur í verkefnishópi um Akureyri sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni en í honum eigum við Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi og formaður stjórnar SSNE. Á fundinum var safnað saman og farið yfir áhersluatriði í hinum ýmsu málaflokkum sem varða framtíðaruppbyggingu og borgarhlutverk Akureyrar.

Og þann sama dag var ég við formlega opnun á nýrri starfsstöð Ríkisendurskoðunar að Glerárgötu 34 sem er ánægjuleg viðbót í flóru atvinnulífsins hér á Akureyri.

Loks vil ég geta þess að í morgun hitti ég nýjan sendiherra Kanada á Íslandi, Jeanette Menzies, en Jeanette hefur mikinn áhuga á því að efla tengsl landanna á ýmsum sviðum og hefur sérstakar mætur á Akureyri. Við ræddum meðal annars norðurslóðasamstarf í víðu samhengi og hugsanleg tækifæri íslenskra ungmenna til að starfa um hríð í Kanada og öfugt. Það var gaman að hitta Jeanette sem hefur augljóslega ýmsar hugmyndir um frekara samstarf landanna og vill efla tengslin við bæinn okkar.