Skýrsla bæjarstjóra 19/3/2019-2/4/2019

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi.

Flutt á fundi bæjarstjórnar 2. apríl 2019.

20. mars: Flutti stutta tölu á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar sem fram fór í Kvosinni í Menntaskólanum á Akureyri. Það tóku þátt nemendur úr 7. Bekk sem voru sér og skólum sínum til mikils dóma. Það var Brynja Karítas Thoroddsen úr Brekkuskóla sem var í 1. Sæti, Helgi Már Þorvaldsson í Lundarskóla í 2. Sæti og Guðmar Gísli Þrastarson í Hríseyjarskóla varð í 3. Sæti. Mig langar líka að nefna fallegan upplestur Ibrahims Khattab Almohammad, nemanda í 7. bekk Glerárskóla á arabísku ljóði sem hann flutti á móður máli sínu.

20. mars: Tók á móti Rótaryklúbbi Akureyrar í ráðhúsið og sýndi þeim húsið og fór yfir starfsemina.

21. mars: Tók móti þeim Guðrúnu Brynleifsdóttur viðskiptaþróunarstjóra hjá Landsvirkjun og Dagnýju Ósk Ragnarsdóttur sérfræðingur viðskiptagreiningar hjá Landsvirkjun. Einnig sátu með mér fundinn þau Guðmundur Baldvin, Halla Björk og Hilda Jana. Guðrún og Dagný Ósk fóru fyrir helstu niðurstöður skyrslu sem Landsvirkjun lét vinna í samstarfi við erlenda ráðgjafa um tækifæri til orkusölu utan höfuðborgarsvæðisins.

21. mars: Unglingameistaramót Íslands á skíðum var sett í Brekkuskóla í ákveðinni óvissu því að veðurspáin var ekki endilega hliðholl mótinu. Ég sagði nokkur hvatningarorð til keppenda og hlýddi svo á magnaðan fyrirlestur Dagnýjar Lindu Kristjánsdóttir þar sem hún sagði frá reynslu sinni sem alþjóðleg keppnismanneskja á skíðum og hvatti alla til dáða með að setja sér markmið því að allt sé mögulegt með einbeittum vilja.

22. mars: Undirritun á samkomulagi milli Akureyrarbæjar, Lögreglunnar á Norðurlandi og Neyðarlínunnar og uppsetningu löggæslumyndavéla. Afar ánægjulegt að búið sé að setja í farveg þetta mál til að auka öryggi íbúanna. Verkefnið er nú þegar farið af stað.

24.-26. mars: Var boðin þátttaka í málstofu í Brussel á vegum Háskólans í Lapplandi og ESB, þar sem rætt var um Norðurslóðir. Yfirskriftin var „Sustainable Arctic in the context of environment and socio-ecomomic changes". Ég fór yfir það hvað við hjá Akureyrarbæ gerum til að leggja okkar af mörkum í umhverfismálum.

27. mars: Var í viðtali í Samfélaginu á Rás 1 þar sem umræðuefnið voru loftlagsmál á Norðurslóðum. Viðtalið var í tilefni af málþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga um loftlagsmál.

28. mars: Flutti erindi á málþingi um loftlagsmál sem haldið var af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Erindið bar yfirskriftina „Loftlagsmál á norðurslóðum-Hlutverk sveitarfélaga.

29. mars: Sat Landsþing sambands íslenskra sveitarfélaga.

1. apríl: Var viðstödd opnun útibús Barnahúss á Norðurlandi staðsett að Glerárgötu 26. Þetta varð að veruleika vegna stuðnings félags- og barnamálaráðherra, dómsmálaráðherra og Lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Útibúið er opnað í góðri samvinnu við Lögregluna á Norðurlandi eystra, barnaverndarnefnd Eyjafjarðar og dómstólasýslunnar og mun útibúið geta veitt börnum af öllu Norðurlandi og Austurlandi þjónustu, og börnum sem búsett eru annars staðar. Þetta úrræði er auðvitað algjör bylting í þjónustu við þau börn sem þurfa slíka þjónustu.

1. apríl: Þjónustumiðstöð fyrir þolendur á Norðurlandi var opnuð í Gamla spítala, þar sem starfsemin verður á sama stað og Aflið. Þökk sé barna- og félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra fyrir að hafa stutt diggilega við málið þannig að það var að veruleika en að þessu koma einnig Lögreglustjórinn á Norðurlandi sem hefur drifið þetta áfram, Akureyrarbær, Háskólinn á Akureyri, Aflið, Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Sjúkrahúsið á Akureyri. Einnig landssamtökin Samtök um Kvennaathvarf, Kvennaráðgjöfin og Mannréttindaskrifstofa Íslands. Með þessari þjónustu er hægt að veita þolendum ofbeldis faglega þjónustu heima í héraði og er afar mikilvægt.

2. apríl: Átti í dag fund með Allan Pope sem er framkvæmdastjóri Alþjóða Norðurskauts vísindanefndarinnar skammstöfuð IASC, þar sem við ræddum málefni fundar Northern Forum sem er framundan í St. Petersburg.