Skólastarf að hefjast eftir sumarfrí

Skólastarf er að hefjast að nýju eftir sumarfrí. Ríflega 2.700 börn verða við leik og störf í grunnskólum Akureyrar í vetur og 950 í leikskólum, sem er svipaður fjöldi og undanfarin ár.

Leikskólar bæjarins hafa tekið til starfa að nýju eftir sumarfrí og verða grunnskólar settir í fyrramálið, 22. ágúst. Kennsla í grunnskólum samkvæmt stundaskrá hefst svo ýmist á föstudag eða mánudag. Nánari upplýsingar um tímasetningar og skipulag er að finna á vefsíðum skólanna. 

Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslusviðs, segir að staðan í skólamálum sé almennt góð. „Búið er að ráða í allar stöður í leik- og grunnskólum bæjarins og hafa margar umsóknir borist um hverja stöðu sem hefur verið auglýst. Mönnun fagfólks í leikskólum er hátt í 70% og í grunnskólum er hún yfir 98%,“ segir Karl.  

Almennt eru börn innrituð í leikskóla einu sinni á ári, að hausti, og skuldbindur Akureyrarbær sig til að innrita öll börn sem eru fædd í apríl 2018. Það hefur gengið eftir og eru engir biðlistar eftir plássi á leikskólum. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan