Skólaleikur í fullum gangi

Líf og fjör í skólaleik í Síðuskóla
Líf og fjör í skólaleik í Síðuskóla

Þrátt fyrir að skólasetning sé ekki fyrr en í næstu viku er mikið líf og fjör í grunnskólum bæjarins. Á þriðja hundrað börn taka nú þátt í skólaleik.

Skólaleikur er samstarfsverkefni leik- og grunnskóla og er í raun tveggja vikna aðlögun fyrir börn sem eru að byrja í fyrsta bekk. Markmiðið er að börnin kynnist hvert öðru og nýja skólanum sínum, húsnæðinu, matsalnum, frístund, útisvæðinu og svo framvegis.

Akureyrarbær bauð í fyrsta sinn upp á skólaleik haustið 2017 og hefur verkefnið gefist vel. Í ár hófst skólaleikur þriðjudaginn 6. ágúst og stendur til og með mánudagsins 19. ágúst. Og þótt þetta sé ekki skylda er þátttaka býsna góð. Í ár taka um 225 börn þátt í skólaleik í sjö grunnskólum á Akureyri, sem er um 85% af heildarfjölda verðandi fyrstu bekkinga í þessum skólum.

Bókasafnið og íþróttahúsið vinsælt

Í Síðuskóla er þátttakan sérlega góð og eru langflest þeirra barna sem eru skráð í fyrsta bekk mætt til leiks. „Þau fara í útiveru, vettvangsferðir, hópavinnu og svo er frjáls leikur,“ segir Ólöf Inga Andrésdóttir, skólastjóri í Síðuskóla. „Þeim er kennt hvernig er farið á bókasafnið, í íþróttahúsið og læra á svæðið,“ segir Ólöf.

Og þótt veðrið hafi ekki beint leikið við Akureyringa að undanförnu er nóg um að vera og börnin notið þess að leika sér úti. „Við erum líka mjög heppin því við erum með mjög fínt bókasafn hérna og íþróttahús,“ segir Ólöf.

Öruggari þegar skólastarf hefst

Hún segir að skólaleikur skipti nemendur miklu máli, ekki síst því börnin koma úr nokkrum leikskólum og þekkjast oft ekki í byrjun. „Svo er fólk að flytja og börn koma ný inn í hópinn, en þegar skólastarfið hefst eru þau búin að kynnast félögum sínum.“ Skólastarfið fari betur af stað þegar börnin eru farin að þekkja nýtt umhverfi. „Þetta gerir þau öruggari þegar skólinn hefst, starfsfólk er sammála um það,“ segir Ólöf.

Almennt verða grunnskólar á Akureyri settir 22. ágúst. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðum skólanna.

Börn í skólaleik í Síðuskóla

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan