Skólahald fellur niður

Skólahald í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar fellur niður frá kl. 13 í dag vegna veðurs. Sama gildir um Tónlistarskólann á Akureyri og framhaldsskólana, MA og VMA.

Spáð er aftakaveðri næsta sólarhringinn. Nú þegar er farið að hvessa og má búast við norðanstórhríð seinnipartinn og fram eftir degi á morgun.

Foreldrar eru beðnir um að sækja börn í skóla og frístund um hádegi.

Þá eru Akureyringar hvattir til að vera ekki á ferðinni að óþörfu. Skyggni er ekki gott og má búast við að færð spillist innanbæjar. Leitast verður við að moka helstu leiðir bæjarins eins og kostur er. Ef veðrið versnar mikið þá gæti þurft að leggja aðaláherslu á að ryðja fyrir sjúkrabíla og neyðarakstur.

Strætisvagnar ganga enn samkvæmt áætlun, sem og ferliþjónusta. Ef breytingar verða á þeirri þjónustu verður tilkynnt um það hér á heimasíðunni og í öðrum fréttamiðlum. Einnig er hægt að fylgjast með stöðunni á Facebook-síðu Strætisvagna Akureyrar. 

Vegna óveðurs verður heimaþjónusta Akureyrarbæjar með skertu sniði í kvöld og á morgun. Nánari upplýsingar veitir búsetusvið í síma 460-1420.

Kveikt hefur verið á götuljósum bæjarins og verða þau látin loga á meðan óveðrið stendur yfir til að auka umferðaröryggi. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan