Skipulagsvinna fyrir Oddeyri að hefjast

Svæðið sem um ræðir afmarkast af rauðu línunni.
Svæðið sem um ræðir afmarkast af rauðu línunni.

Bæjarstjórn samþykkti í vikunni tillögu að skipulagslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Akureyrar á Oddeyri. Í tillögunni felst að reitur sem er í gildandi skipulagi skilgreindur sem athafnasvæði verði skilgreindur sem íbúðarsvæði. Þá er lagt til að sett verði inn sérákvæði fyrir umrætt svæði.

Reiturinn sem um ræðir afmarkast af Hjalteyrargötu í vestri, Kaldbaksgötu í austri, Gránufélagsgötu í norðri og Strandgötu í suðri.

Hvað er skipulagslýsing?

Skipulagslýsing er í raun lýsing á verkefninu og fyrsta skref af mörgum í skipulagsferlinu. Bæjarstjórn ber, samkvæmt lögum, að setja fram lýsingu á verkefninu þegar vinna við aðalskipulagsbreytingu hefst. Þar koma fram áherslur bæjarstjórnar, helstu forsendur og upplýsingar um fyrirhugað ferli, til dæmis hvernig kynningu og samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila verður háttað.

Hér er hægt að lesa lýsingu á verkefninu.

Hver er forsagan?

Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir þéttingu íbúðabyggðar og eru nokkur svæði í bænum skilgreind sem þróunarsvæði sem gætu tekið nokkrum breytingum á komandi árum. Umræddur reitur er eitt þeirra svæða. Nú hefur þróunaraðili, sem á meirihluta svæðisins, unnið tillögu að uppbyggingu sem gerir ráð fyrir allt að fimm 6-11 hæða fjölbýlishúsum með íbúðum á efri hæðum, en atvinnustarfsemi og bílastæðahúsi á neðstu hæðum.

Þessi tillaga samræmist ekki núgildandi aðalskipulagi, enda er svæðið þar að mestu skilgreint sem athafnasvæði og gert ráð fyrir að nýjar byggingar verði almennt 3-4 hæðir. Í dag eru þarna nokkrar iðnaðar- eða athafnabyggingar, eitt íbúðarhús og Gránufélagshúsið sem hýsir veitingastað og er friðað. Tillagan gerir ekki ráð fyrir öðru en að Gránufélagshúsið verði áfram á svæðinu.

Skipulagsráð samþykkti í sumar að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að hefja vinnu við breytingar sem taki mið af tillögu þróunaraðila. Nú liggur fyrir lýsing á verkefninu sem skipulagsráð og bæjarstjórn hafa samþykkt.

Hvað gerist næst?

Íbúar eru hvattir til að kynna sér skipulagslýsinguna sem er aðgengileg hér. Hún verður auglýst formlega og mun þá einnig liggja frammi hjá skipulagssviði Akureyrarbæjar. Auk þess verður haldinn opinn kynningarfundur á næstu vikum. Á þeim fundi verður verkefnið kynnt og hugmyndir þróunaraðila sömuleiðis.

Aðalskipulagi er hins vegar ekki breytt á einni nóttu. Þegar fólk hefur fengið tækifæri til að kynna sér lýsinguna hefst eftirfarandi ferli:
-Vinna hefst við tillögu að aðalskipulagsbreytingu og rammahluta aðalskipulags. Sú tillaga verður kynnt íbúum og öðrum hagsmunaaðilum síðar á árinu. Samþykkja þarf tillöguna á fundi skipulagsráðs og í framhaldinu á fundi bæjarstjórnar.
-Ef skipulagsráð og bæjarstjórn samþykkja tillöguna er hún send Skipulagsstofnun sem hefur allt að fjórar vikur til að gera athugasemdir.
-Tillagan er í kjölfarið sett í lögbundið auglýsingar- og kynningarferli og gefst öllum kostur á að gera athugasemdir.
-Að því loknu er tillagan tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs ásamt mögulegum athugasemdum og umsögnum. Skipulagsráð og bæjarstjórn fara yfir málið, gera ef til vill breytingar eða samþykkja tillöguna.
- Breyting á aðalskipulagi og rammahluta aðalskipulags send Skipulagsstofnun sem hefur allt að fjórar vikur til að koma með athugasemdir. Geri stofnunin engar athugasemdir öðlast breytingin formlegt gildi.

Í tengslum við vinnuna verður haft samráð við helstu hagsmunaaðila og stofnanir sem tengjast breytingunni. Dæmi um helstu samráðsaðila auk Skipulagsstofnunar eru Isavia, Minjastofnun, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, Norðurorka, hverfisnefnd Oddeyrar og lóðarhafar á svæðinu og í nágrenninu.

Þá eru íbúar og aðrir áhugasamir hvattir til að kynna sér málið, gera athugasemdir og mæta á kynningarfund sem verður auglýstur nánar við tækifæri.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan