Skipulagsráð leggur til að breyting á aðalskipulagi verði auglýst

Meirihluti skipulagsráðs samþykkti í gær að leggja til við bæjarstjórn að aðalskipulagsbreyting fyrir hluta Oddeyrar verði auglýst í samræmi við skipulagslög. Afgreiðslu málsins var frestað á fundi 10. júní og síðan þá hefur verið fundað með fulltrúum hverfisnefndar Oddeyrar, eigendum mannvirkja á svæðinu og þróunaraðila.

Reiturinn afmarkast af Hjalteyrargötu í vestri, Kaldbaksgötu í austri, Gránufélagsgötu í norðri og Strandgötu í suðri. Þetta er hluti af stærra þróunarsvæði þar sem er gert ráð fyrir endurnýjun og framtíðaruppbyggingu.

Tillagan var kynnt 6. maí síðastliðinn. Í henni felst að reiturinn verði að mestu skilgreindur sem íbúðarsvæði og heimilt verði að byggja sex til átta hæða hús með verslunar- og þjónustustarfsemi á jarðhæð. Frá því lýsing aðalskipulagsbreytingarinnar var kynnt í október í fyrra hefur verið brugðist við umsögnum og athugasemdum, einkum með því að takmarka hæð bygginga við 25 metra yfir sjávarmáli. Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar og skipulagsgögn.

Í bókun meirihluta skipulagsráðs frá 22. apríl sem var ítrekuð á fundi ráðsins í gær segir að Oddeyri sé mikilvægt svæði þegar kemur að framtíðarþróun Akureyrar og æskilegt sé að koma svæðinu í endurnýjun og uppbyggingu sem fyrst. Þá bendir meirihluti ráðsins á að þétting byggðar sé hvoru tveggja umhverfisvæn og hagkvæm og með uppbyggingu á Oddeyri, sem er í dag fremur fámennt hverfi, skapist möguleikar á að nýta innviði og þjónustu svæðisins betur.

Næsta skref er að bæjarstjórn Akureyrar taki tillöguna fyrir á fundi. Ef hún verður samþykkt þá fer tillagan til Skipulagsstofnunar til athugunar og í framhaldinu verður hún auglýst og kynnt vel í sex vikur. Þá geta allir komið sínum athugasemdum á framfæri áður en skipulagsráð og bæjarstórn taka málið fyrir að nýju.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan