Skipulagslýsing vegna uppbyggingar við Tónatröð

Tillaga Yrki arkitekta að uppbyggingu. Mynd úr skipulagslýsingu.
Tillaga Yrki arkitekta að uppbyggingu. Mynd úr skipulagslýsingu.

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í gær skipulagslýsingu vegna breytinga á skipulagi svæðis við Spítalaveg og Tónatröð í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu.

Skipulagslýsing er í raun lýsing á skipulagsverkefninu, þar sem koma fram helstu áherslur bæjarstjórnar, upplýsingar um forsendur, fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli.

Skipulagsráð bæjarins tók í byrjun nóvember fyrir tillögu Yrki arkitekta að uppbyggingu við Tónatröð og samþykkti að hefja vinnu við breytingu á skipulagi svæðisins.

Markmiðið að nýta svæðið betur

Í stuttu máli felur tillagan í sér breytt fyrirkomulag lóða og húsa þar sem aukið er við byggingarmagn og íbúðum fjölgað. Gert er ráð fyrir að breyta þurfi bæði aðalskipulagi og deiliskipulagi. Samkvæmt núgildandi skipulagi eru á svæðinu óbyggðar einbýlishúsalóðir en lagt hefur verið til að í staðinn verði byggð fjölbýlishús.

Í skipulagslýsingunni kemur fram að miðlæg staðsetning svæðisins geri það áhugavert til uppbyggingar, jafnvel þótt það sé ekki skilgreint sem þéttingarsvæði í gildandi aðalskipulagi. „Miðað við framgang uppbyggingar á svæðinu undanfarin 30 ár er ekki talið skynsamlegt að gera áfram ráð fyrir stórum einbýlishúsum á tveimur til þremur hæðum eins og deiliskipulag svæðisins hefur hingað til miðað við. Er það mat skipulagsráðs að nýta mætti svæðið með betri hætti,“ segir í lýsingunni.

Hvað gerist næst?

Fólk er hvatt til að kynna sér skipulagslýsinguna sem er aðgengileg hér. Hægt er að koma á framfæri ábendingum til og með 12. janúar sem er ívið lengri frestur en almennt tíðkast vegna hátíðanna.

Smelltu hér til að senda inn ábendingu. Einnig er hægt að koma á framfæri ábendingum með tölvupósti á skipulagssvid@akureyri.is eða með bréfpósti í Ráðhús Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 600 Akureyri, merkt Skipulagssviði. Uppfært 13/1: Ábendingafrestur er liðinn og hefur ábendinaforminu því verið lokað í bili. 

Að loknu kynningarferli og samráði við helstu umsagnar- og hagsmunaaðila um skipulagslýsinguna hefst vinna við tillögu að breytingu á aðal- og deiliskipulagi. Drög að tillögunni verða kynnt íbúum og öðrum hagsmunaaðilum með ítarlegum hætti og fólki gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum áður en lengra er haldið.

Hér er nýtt vefsvæði með öllum helstu upplýsingum um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar og uppbyggingu við Tónatröð. Vefsvæðið verður uppfært eftir því sem málinu vindur fram.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan