Skemmtileg heimsókn í Hríseyjarskóla

Krakkarnir um borð í Hríseyjarferjunni Sævari.
Krakkarnir um borð í Hríseyjarferjunni Sævari.

Í byrjun skólaársins komu grunnskólar Drangsness og Borgarfjarðar eystri í heimsókn í Hríseyjarskóla. Alls eru 14 nemendur í skólunum, fjórir í Borgarfirði og níu á Drangsnesi. Áður hafði verið ákveðið að fara í skólaferðalag til Grímseyjar en vegna óhagstæðrar veðurspár var ákveðið að fara til Hríseyjar. Skólarnir í Borgarfirði og á Drangsnesi hafa haft töluvert samstarf sín á milli síðustu árin.

Mjög vel fór á með nemendunum skólanna þriggja og greinilega er mikill samhljómur á milli nemenda í þessum fámennu skólum. Nokkur samskipti hafa verið á milli skólastjóra fámennra skóla síðustu misserin. Nemendur Hríseyjarskóla kynntu skólann og eyjuna fyrir gestunum, síðan borðuðu allir saman og enduðu daginn á sameiginlegri kvöldvöku. Gestirnir héldu svo heim á leið morguninn eftir og nemendur Hríseyjarskóla voru þeim samferða í ferjunni því þeir voru á leið í siglingu með Húna.

Vonir standa til að framhald verði á þessu samstarfi því það er mjög mikilvægt fyrir nemendur í fámennum skólum að geta borið sig saman við aðra í sömu aðstæðum. Það er langsóttara að bera sig saman við stóru skólana því það er mikill munur á því að vera í samkennslu með krökkum á ólíkum aldri eða í bekkjakerfi með jafnöldrum sínum.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan