Sjáumst á Akureyrarvöku!

Akureyrarvaka, afmælishátíð Akureyrarbæjar fer fram 25.-26. ágúst og er veisluboðið fjölbreytt, skemmtilegt og fræðandi. Þó að formlega setning fari að venju fram í rökkurró í Lystigarðinum á föstdagskvöldið kl 21 er það unga kynslóðin sem tekur að sér að draga fána Akureyrarvöku að húni á föstudagsmorgun kl. 10 og verður það gert við stóru fánastöngina í Listagilinu. Þetta er samvinnuverkefni krakka af leikskólunum Iðavelli og Hólmasól og bæjarstjórans Eiríks Björns Björgvinssonar. Á föstudagskvöld verður einnig Hryllingsvakan í Íþróttahöllinni þar sem ungt og efnilegt tónlistarfólk á Norðurlandi heldur uppi fjörinu. Þemað er svart og eru gestir hvattir til að klæðast svörtu frá toppi til táar. Listasýningin „Fólkið í bænum sem ég bý í“ opnar á föstudagskvöld á Ráðhústorgi 7 þar sem sjónum var beint að 8 einstaklingnum, fjórum konum og fjórum körlum.

Á laugardag upplagt að hefja daginn með stuttri fjölskyldusiglinu um Pollinn með Húna eða sjá heimildarmyndina Amma Dagbók Dísu sem sýnd verður á Öldrunarheimilinu Hlíð kl. 11 en aðalsöguhetjan er Hjördís Kristjánsdóttir íbúi á Hlíð. Í Listagilinu verður líf og fjör með tónlist, mat, listsýningum og leiðsögn og listahópurinn RÖSK kemur sér fyrir með gjörninginn #fljúgandi. Á Ráðhústorgi verður skátagaman þar sem ungviðinu gefst kostur á búa til barmmerki, gera poppkorn yfir eldstæði og fl. og í Landsbankanum verður leiðsögn um listaverkaeignina kl. 14-15  en þar má sjá fjölda verka eftir þekktustu listamenn þjóðarinnar. Í Skátagilinu verða sirkusfimleikar þeim Kalla og Sigurbjörgu sem kalla sig Instant Air Force Chameleons og gefst fólki kostur á að prófa danslyftur og ýmsar fimleikaæfingar. Í Kaktus verður mikið um að vera alla Akureyrarvöku, myndlist, tónlist, bíósýningar og fljúgandi matarboð.

Í Rósenborg verður sérstaklega vel tekið á móti ungviðinu en þar verður Fjölskyldudagur Myndlistarfélagsins þar sem boðið verður upp á vinnustöðvar og verða leiðbeinendur á staðnum, skemmtileg barnamynd verður sýnd í salnum á 4. hæð og einnig verða í Listasalnum Braga tvær ljósmyndasýningar á verkum Sigríðar Ellu Frímannsdóttur.

Vísindasetur verður í Hofi og er dagskráin afar fjölbreytt og fræðandi. Það verða m.a. sprengjusýningar, hitamyndavél sem mælir hitann í líkamanum, slím og slímgerð, froðutöfrar, spennandi fyrirlestrar m.a. um íslenska refinn og Melrakkasetur Íslands. Einnig verður reynt að svara spurningunni hvort það hafi verið eða verði í framtíðinni líf á Mars. Hljóðtaktar verða teygðir til og tvistaðir, kíkt verður undir malbikið á hin ýmsu rör og lagnir sem þar er að finna, rafrásir settar saman og leyndarmál bergsins skoðað. Þetta og svo margt fleira fræðandi sem allir þurfa að prófa!

Í Samkomuhúsinu verður gamanóperan Piparjúnkan og þjófurinn sýnd en þar er fjallað um slúður og leyndarmál í litlum hljóðlátum bæ. Sýninging er sungin á ensku en textavél á sviðinu er með íslenskum texta. Skáldið KÁINN verður til umfjöllunar á málþingi í Háskólanum á Akureyri, ljóð og lög listakonunnar í Fjörunni verða sungin og flutt í Minjasafnskirkjunni.  Við togarabryggjuna verður Kaldbaki EA 1 gefið nafn við hátíðlega athöfn og kaffiveitingar á eftir í húsnæði Úgerðarfélagsins í boði Samherja.

Í Sundlaug Akureyrar verða ljúfir tónar kl. 18 af þeim Guðrúnu Hörpu og Atla Má og upplagt að fara í sund og njóta.

Það verða stórtónleikar í Listagilinu á laugardagskvöld sem hefjast kl. 21. Fram kemur hljómsveitin VAÐLAHEIÐIN sem sett er saman sérstaklega fyrir Akureyrarvöku en hana skipa Valur Freyr Halldórsson, Summi Hvanndal, Kristján Edelstein, Arnar Tryggvason og Valmar Valjaots og munu þessi flottu listamenn verða gestgjafar á sviði. Gestir stórtónleikanna verða þ au Andrea Gylfadóttir, Pálmi Gunnarsson, KÁ-AKÁ, Valdimar og júróvisjónstjarnan Jóhanna Guðrún og á lagalistanum eru lögin sem landsmenn þekkja svo vel og hafa sungið með í gegnum tíðina.

Friðarvakan í kirkjutröppunum er orðinn fastur liður í lok Akureyrarvöku en þá eru tröppurnar fylltar af friðarkertum sem Plastiðjan-Bjarg framleiðir sérstaklega fyrir þennan viðburð. Bæjarbúar og gestir eru hvattir til að taka þátt með því að kaupa kerti en það er Slysavarnadeildin á Akureyri sem sér um sölu á kertunum og verður safnað fyrir hjartastuðtækjum sem komið verður fyrir á fjölförnum stöðum í bænum. Kertin verða seld í Lystigarðinum við setningu Akureyrarvöku og allan laugardaginn í miðbænum. Tökum þátt í að styðja við gott málefni og upplifum fegurðina þegar friðarkertin lýsa upp allar tröppurnar.

Upplagt er að enda Akureyrarvöku á rómantískri siglingu kl. 23 með Húna um Pollinn. Með í för verða félagar úr Karlakór Akureyrar-Geysi sem flytja huggulega tónlist.

Þetta er aðeins brotabrot af dagskránni en hana má finna á akureyrarvaka.is, á facebook og Akureyrarvaka er einnig á Instagram. Bæklingi með dagskrá Akureyrarvöku er dreift í öll hús á Akureyri með Dagskránni og einnig verður hægt að kippa með eintaki hér og þar um bæinn.

HELSTU STYRKTAR- OG SAMSTARFSAÐILAR AKUREYRARVÖKU ERU:

LANDSBANKINN, EIMSKIP, NORÐURORKA, HÓTEL KEA, EFLA VERKFRÆÐISTOFA, RAFTÁKN, HÁSKÓLINN Á AKUREYRI, MENNINGARFÉLAG AKUREYRAR, EXTON, ÖLSTOFAN, BAUTINN, LISTASAFNIÐ Á AKUREYRI, MINJASAFNIÐ Á AKUREYRI, SLIPPFÉLAGIÐ, HJÚKRUNAR- OG DVALARHEIMILIÐ HLÍÐ, RÓSENBORG, T BONE STEIKHÚS, RUB 23, PENNINN-EYMUNDSSON, LYSTIGARÐURINN Á AKUREYRI, ÍÞRÓTTAHÖLLIN Á AKUREYRI, BÍLAKLÚBBUR AKUREYRAR, AMTSBÓKASAFNIÐ Á AKUREYRI, FAB LAB AKUREYRI, EIMUR, NÝSKÖPUNARMIÐSTÖÐ, SUNDLAUGIN Á AKUREYRI OG VISTORKA

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan