Sigurvegari í ljósmyndasamkeppninni

Sigurvegari ljósmyndasamkeppninnar ásamt dómnefnd. f.v. Kristján Bergmann Tómasson, Jón Birgir Gunnl…
Sigurvegari ljósmyndasamkeppninnar ásamt dómnefnd. f.v. Kristján Bergmann Tómasson, Jón Birgir Gunnlaugsson, Inga Dagný Eydal og María Helena Tryggvadóttir.

Úrslit liggja fyrir í ljósmyndasamkeppni Akureyrarbæjar í tengslum við evrópsku samgönguvikuna. Sigurvegarinn er Inga Dagný Eydal með skemmtilegri mynd af fólki að ganga upp Kaupvangsstræti í haustblíðunni.

Þema ljósmyndasamkeppninnar var „Göngum'etta“, en það var einmitt yfirskrift samgönguvikunnar þetta árið. Íbúar voru hvattir til að deila mynd á samfélagsmiðlum sem tengdist þemanu og senda í tölvupósti til Akureyrarbæjar. Á fjórða tug mynda bárust í keppnina og er öllum þátttakendum þakkað fyrir að senda inn myndir.

Dómnefnd skipuðu þau María Helena Tryggvadóttir frá Akureyrarstofu, Jón Birgir Gunnlaugsson frá umhverfis- og mannvirkjasviði og Kristján Bergmann Tómasson frá samfélagssviði. Verkefni þeirra var ekki auðvelt, enda voru margar áhugaverðar, fallegar og vel unnar myndir í pottinum. Dómnefnd gat þó ekki aðeins leyft sér að horfa til listrænna tilburða, heldur þurfti myndin að falla vel að þema keppninnar.

Umsögn dómnefndar um sigurmyndina: Tveir einstaklingar að ganga upp gilið sem reynist mörgum frekar erfitt og lýsir myndefnið því vel. Þau eru þó næstum komin upp og uppskera fyrir erfiðið. Skemmtiferðaskipið, sem er tákn þæginda og slökunar, er skemmtileg andstæða erfiðisins sem felst í göngunni. Fallegir litir, spegilsléttur pollur og fín myndbygging.

Inga Dagný Eydal, sigurvegari keppninnar, fær að launum 30.000 króna gjafabréf í Ellingsen. 

Til hamingju!

Sigurmyndin

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan