Sífellt fleiri nota frístundastyrkinn

Frístundastyrkinn má meðal annars nota til að greiða fyrir vetrarkort í Hlíðarfjall.
Frístundastyrkinn má meðal annars nota til að greiða fyrir vetrarkort í Hlíðarfjall.

Það sem af er ári hefur frístundastyrk verið ráðstafað fyrir um helming barna á aldrinum 6-17 ára á Akureyri, eða sem nemur samtals 56 milljónum króna. Foreldrar eru eindregið hvattir til að nýta styrkinn fyrir börn sín.

Skólar eru að hefjast að nýju eftir sumarfrí og er verið að leggja lokahönd á tímatöflur íþróttafélaga. Nú er góður tími til að kanna möguleika á niðurgreiðslu gjalda vegna íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfs.

Á þessu ári nemur frístundastyrkur Akureyrarbæjar 35 þúsund krónum á hvern iðkanda og gildir fyrir börn og ungmenni fædd 2002 til og með 2013. Það er einfalt að nýta styrkinn og hér eru nánari upplýsingar. Eins veita íþrótta- og tómstundarfélögin aðstoð og frekari upplýsingar.

Aukin notkun samhliða hærri upphæð

Framlög Akureyrarbæjar til niðurgreiðslu íþrótta- og tómstundastarfs hafa verið aukin á síðustu árum. Frístundastyrkurinn hefur þar af leiðandi þrefaldast frá árinu 2015. „Nýtingin hefur farið stigvaxandi undanfarin ár samhliða hækkun á frístundastyrknum,“ segir Ellert Örn Erlingsson, deildarstjóri íþróttamála. Í fyrra var styrknum ráðstafað til 79% barna á þessum aldri, samanborið við 71% árið 2016. 

Ár Upphæð frístundastyrks
2006-2014 10.000
2015 12.000
2016 16.000
2017 20.000
2018 30.000
2019 35.000

 

Ekki bara skipulagðar æfingar eða námskeið

Nýtingin er langmest hjá yngsta aldurshópnum, 1.-4. bekk, en minnkar svo hlutfallslega á unglingsárunum. Á allra síðustu árum hefur verið lögð rík áhersla á að opna á fleiri nýtingarmöguleika en áður. „Til dæmis með því að gera börnum og unglingum kleift að nýta frístundastyrkinn til að kaupa aðgang að líkamsræktarstöðvum, vetrarkort í Hlíðarfjall eða árskort í Sundlaug Akureyrar,“ segir Ellert.

Frístundastyrkurinn einskorðast sem sagt ekki við skipulagðar æfingar íþróttafélaga og námskeið myndlistar- eða tónlistarskóla.

Markmiðið að öll börn njóti góðs af styrknum

Ef frístundastyrkurinn verður nýttur að fullu á þessu ári þá nemur niðurgreiðsla sveitarfélagsins í heild um 114 milljónum króna. Í byrjun ágúst hafði um 56 milljónum verið ráðstafað, eða um 49%.

Ellert hvetur foreldra til að kynna sér frístundastyrkinn og kanna möguleika á nýtingu. „Í öllu því tómstundar- og frístundastarfi sem börn þeirra hafa áhuga á og eða eru að stunda. Það á að vera hægt að nota styrkinn býsna víða og við viljum ólm að öll börn á Akureyri geti nýtt sér hann,“ segir Ellert.

Akureyri er heilsueflandi samfélag

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan