Sérdeild og núvitund í Giljaskóla

Ragnheiður Júlíusdóttir, þroskaþjálfi og deildarstjóri sérdeildar, að störfum.
Ragnheiður Júlíusdóttir, þroskaþjálfi og deildarstjóri sérdeildar, að störfum.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, heimsótti Giljaskóla í síðustu viku og kynnti sér meðal annars starfsemi sérdeildar skólans fyrir fjölfötluð börn. Hlutverk deildarinnar er að sinna kennslu og þjálfun barna með alvarlega greindarfötlun og aðrar viðbótarfatlanir. Nemendur eiga kost á fjölbreyttum námsleiðum, sérvöldum námsgögnum og vel skipulögðum kennsluaðstæðum. Unnið er að því að efla þroska á sviði skynjunar, hreyfingar, boðskipta, hugsunar, félags- og tilfinningalegs þroska, og hins vegar að auka færni nemenda í að takast á við daglegt líf, svo sem sjálfshjálp, einföld störf og tómstundir. Starfið vekur ávallt mikla hrifningu gesta.

Í Giljaskóla eru starfshættir í stöðugri þróun og var hann fyrsti grunnskóli landsins til að taka upp kennslu og þjálfun í núvitund. Slík þjálfun hjálpar nemendum að ná betri tökum á hugsunum sínum og tilfinningum. Með betra jafnvægi batnar árangur í námi, samskiptum og á ýmsum öðrum sviðum. Sýn Giljaskóla tekur mið af því hvað kemur einstaklingi best að tileinka sér til að ná árangri í lífinu og hefur Uppbyggingarstefnan reynst góður grunnur í samskipta og agamálum. Þessi misserin er unnið af krafti við innleiðingu upplýsingatækni til að auka frumkvæði og virkni nemenda, sjálfstæði, rökhugsun og skapandi vinnu. Kóðun er hluti af náminu og í list- og verkgreinum eru til dæmis framleidd „time-lapse myndbönd" og rafrænar ferilbækur notaðar til að skrá ferli og halda utanum gögn. Fleira mætti nefna en orð bæjarstjóra verða lokaorðin hér: „...starfið í skólanum er einstakt. Þetta er sko alvöru menntastofnun!"

Fjöldi nemenda við Giljaskóla er um 394 og starfsmenn eru um 73 talsins. Skólastjóri er Jón Baldvin Hannesson.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan