Samráð við ungmenni um strætó

Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi spjallar við nemanda í Menntaskólanum á Akureyri.
Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi spjallar við nemanda í Menntaskólanum á Akureyri.

Fulltrúar Akureyrarbæjar hafa undanfarnar vikur heimsótt skóla og félagsmiðstöðvar og rætt við börn og ungmenni um leiðarkerfi og þjónustu Strætisvagna Akureyrar. Þetta er liður í tilraunaverkefni um aukið íbúasamráð.

Akureyrarbær hóf tilraunaverkefnið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, en auk þess voru Norðurþing, Stykkishólmsbær og Kópavogsbær valin til þátttöku. Hér má lesa nánar um forsögu og tilgang þessa framtaks. 

Verkefni Akureyrarbæjar snýst um samráð við börn og ungmenni vegna fyrirhugaðra breytinga á leiðarkerfi strætó. Í þessari lotu var leitað sérstaklega til nemenda á mið- og elsta stigi grunnskóla svo og til nemenda í framhaldsskólum bæjarins.

Framhaldsskólarnir, MA og VMA, voru heimsóttir í frímínútum og gafst nemendum kostur á að svara spurningalista. Sami spurningalisti var lagður fyrir nemendur í 8.-10. bekk í þremur félagsmiðstöðvum á ólíkum stöðum í bænum. Samráð við yngsta hópinn, 5.-7. bekk, var framkvæmt með rýnihópum innan þriggja grunnskóla. Þátttakendur voru meðal annars spurðir hvort þeir notuðu strætó reglulega, hvers vegna/hvers vegna ekki, hvað megi helst bæta og hvað þurfi að leggja áherslu á við endurskoðun á leiðarkerfi. 

Alls voru þetta níu samráðsviðburðir sem gengu mjög vel. Heilt yfir voru ungmennin áhugasöm, tilbúin að taka þátt og vildu greinilega segja sína skoðun á þessari mikilvægu þjónustu sem almenningssamgöngur eru. Fyrir það ber að þakka. 

Tekist hefur að safna töluverðum upplýsingum og gögnum sem þarf að leggjast yfir og greina strax eftir áramótin. Í framhaldinu verða næstu skref ákveðin. Stefnt er að því að fá fá enn fleiri íbúa að borðinu í kjölfarið þannig að fyrirhugaðar endurbætur gangi vel og taki mið af þörfum sem flestra.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan