Samkomubann notað til framkvæmda

Sundlaugar og söfn eru lokuð fyrir gestum í samkomubanni en því fer fjarri að allir sitji með hendur í skauti og ekkert sé um að vera. Þvert á móti er þessi óvenjulegi tími notaður til nauðsynlegra framkvæmda og kærkominna breytinga í Sundlaug Akureyrar og á Amtsbókasafninu. 

Lagfæringar á búningsklefum

Um leið og sundlauginni var lokað hófust framkvæmdir innanhúss. Á verkefnalistanum er meðal annars að lagfæra búningsklefa og sturtur. Aðgengi að salernum verður stórbætt í kvennaklefa, skipt um skilrúm og setbekkir við skápa endurnýjaðir.

Þá verður á 2. hæð útbúinn sérbúningsklefi og klefi fyrir fatlað fólk með aðstöðu fyrir aðstoðarmann.

10 þúsund bækur á nýjan stað

Á Amtsbókasafninu hafa verið gerðar miklar breytingar á 2. hæðinni. Lesaðstaða sem var í norðurhluta er nú í suðurhlutanum. Við þetta voru allar hillur færðar til og rúmlega 10 þúsund bindi bóka hafa fengið nýjan stað. Með þessum tilfæringum eykst rými fyrir setusvæði og er ætlunin að fjölga borðum og stólum. Gestir geta því í auknum mæli notað safnið til vinnu og afþreyingar af ýmsu tagi og notið útsýnisins.

Gestir koma næst í betrumbætt safn

Mikið af safnefni hefur undanfarna daga verið flutt til um leið og búið er til meira pláss. Nú þegar hefur ein geymsla á 2. hæð verið tæmd og er hugmyndin að nota rýmið fyrir aðra starfsemi í framtíðinni, til dæmis fundahöld eða klúbbastarf. Þá hafa verið gerðar breytingar á kaffistofu starfsfólks, skipt um ljós í anddyri safnsins, málaðir útstillingarkassar, auk þess sem tíminn hefur verið nýttur til að fara vel yfir safnkostinn og hillumerkingar, gera við bækur og grisja. „Allar þessar breytingar stuðla að því að við tökum vel á móti gestum okkar með breyttu og bættu safni þegar Covid-19 faraldurinn er afstaðinn,“ segir Sigrún Ingimarsdóttir, settur amtsbókavörður.

Segja má að það sé lán í óláni að geta notað tímann í samkomubanni, þegar það er hvort eð er lokað í sundlauginni og á safninu, til að ráðast í lagfæringar og breytingar sem í báðum tilvikum voru tímabærar. Þannig er hægt að komast hjá því að loka eða skerða þjónustu vegna þessara framkvæmda á öðrum tímum.

Nokkrar myndir frá Amtsbókasafninu og Sundlaug Akureyrar síðustu daga:

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan