Samið við ÁK Smíði ehf um framkvæmdir við Listasafnið á Akureyri

Undirritaður hefur verið verksamningur milli Umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar og ÁK Smíði ehf um endurbætur á Listasafni Akureyrar. Heildarupphæð verksamningsins er kr. 413.081.324. Framkvæmdir hófust strax að lokinni samningagerð og skal þeim lokið 1. júní 2018.

Í dag er Listasafnið á Akureyri rekið í hluta gamla húsnæðis Mjólkursamlags KEA sem er á fimm hæðum og um 2.200 m² að stærð. Lengi hefur staðið til að taka aðrar hæðir hússins undir starfsemi Listasafnsins en þær hafa verið í lítilli notkun vegna ástands húsnæðisins, þar sem stór hluti þess er upprunalegur. Það uppfyllir ekki kröfur um eldvarnir, heilbrigðismál og aðgengismál og þarf m.a. að endurnýja allar vatns- og raflagnir og loftræstikerfi.

Það hefur því verið ljóst að ráðast þurfi í gagngerar endurbætur á húsnæðinu til að það uppfylli kröfur sem gerðar eru til húsnæðis listasafns gagnvart reglugerðum, rekstraraðilum og notendum.

Þegar kostnaðartölur eru skoðaðar þarf að horfa til þess að þær framkvæmdir sem eru nú að byrja eru að stórum hluta uppsafnað viðhald á húsnæðinu sem nauðsynlegt er að ráðast í til að það verði ekki fyrir skemmdum og að lokum jafnvel ónothæft. Tengigangur á milli Mjólkursamlags og Ketilhúss stuðlar að hagræðingu fyrir rekstur Listasafnsins og eykur möguleika í starfsemi þess til muna. 

 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan