Samgönguvikan er hafin!

Evrópska samgönguvikan hefst í dag og er að þessu sinni haldin undir yfirskriftinni Göngum'etta. Akureyrarbær tekur þátt, venju samkvæmt, og er ýmislegt á dagskrá.

Samgönguvikan er haldin 16.-22. september ár hvert. Markmiðið er að kynna íbúum í þéttbýli vistvæna samgöngumáta, sem eru allt í senn hagkvæmir, bæta heilsu fólks og hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft.

Vikan hefst á Degi íslenskrar náttúru, 16. september, og eru einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök, skólar og aðrar stofnanir hvattar til að hafa daginn í huga í starfsemi sinni. Þeir sem nota samfélagsmiðla í tengslum við daginn eru minntir á myllumerkin #íslensknáttúra og #DÍN. Í tilefni Dags íslenskrar náttúru er bent á lýðheilsugöngu Ferðafélags Akureyrar meðfram Glerárgili og Glerá, miðvikudaginn 18. september kl. 18-19:30. Nánari upplýsingar gönguna eru hér.

Af öðrum áhugaverðum viðburðum á Akureyri má nefna Stæðaæði – Park (ing) Day föstudaginn 20. september. Þá fá bílastæði í miðbænum nýtt hlutverk og þeim breytt í reiðhjólastæði og almenningsgarð. Nánari upplýsingar þegar nær dregur.

Á sunnudaginn 22. september er bíllausi dagurinn og þá er fólk hvatt sérstaklega til að skilja bílinn eftir heima. Á Akureyri er alltaf frítt í strætó, en þennan dag verður farþegum boðið upp á bækur og blöð til lestrar í almenningsvögnum bæjarins. 

Hvetjum fólk til að nota strætó á sunnudaginn.

Akureyringar eru hvattir til að nota vistvæna og heilsueflandi samgöngumáta í vikunni. Ekki verra ef fólk deilir á samfélagsmiðlum mynd af sér á ferðinni með myllumerkinu #samgönguvika eða #mobilityweek. Þá tökum við fagnandi á móti myndum á Facebook-síðu Akureyrarbæjar.

Samgönguvika á Akureyri er líka á Facebook. Fylgist með og takið þátt!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan