Sagan við hvert fótmál á Akureyri

Frá vígslu söguvarðanna fyrr í dag.
Frá vígslu söguvarðanna fyrr í dag.

Fyrr í dag voru sex nýjar söguvörður vígðar á Oddeyri. Forsagan er sú að á 150 ára kaupstaðarafmæli Akureyrarbæjar árið 2012 var ákveðið að ráðast í gerð söguskilta í elstu bæjarhlutunum þar sem bæjarbúum og gestum, innlendum sem erlendum, væru kynnt brot úr sögu bæjarins í máli og myndum. Þessi skilti fengu nafnið „söguvörður".

Ef rýnt er í orðið söguvarða þá er það, eins og flest íslensk orð, gegnsætt og lýsandi ef vel er að gáð. Það hefur skírskotun til þess að vörður hafa um aldir verið leiðarvísir á ferðum manna um landið en með því að hnýta sögunni framan við er jafnframt minnt á að varðan geymir sögu bæjarins og þar með upplýsingar fyrir ferðamenn og aðra sem vilja kynna sér söguna. Með því að fylgja söguvörðunum er hægt að ganga á milli elstu bæjarhluta Akureyrar og fræðast um sögu umhverfisins og nærliggjandi húsa.

Söguvörðurnar hafa verið settar upp í nokkrum áföngum. Árið 2012 voru settar upp sex söguvörður í elsta bæjarhlutanum, á gömlu Akureyri í Innbænum, árið 2015 voru settar upp tvær söguvörður í Grímsey og þrjár söguvörður í miðbænum, og nú í þessum áfanga bætast við sex nýjar söguvörður á Oddeyri. Sú efsta er við Hof en hinar eru á gönguleiðinni niður Strandgötuna, eða ein varða á móts við hverja hliðargötu, og sú neðsta í nágrenni við Gránufélagshúsin. Þar með verður búið að varða gönguleið milli þriggja elstu hverfa Akureyrar. Áhersla hefur verið lögð á vekja áhuga vegfarenda á sögu bæjarhlutanna og gamlar ljósmyndir eru notaðar til að fanga ýmis augnablik í sögu bæjarins.

Skiltin eru öll með smartkóða (QR-kóða) sem auðveldar þeim fróðleiksfúsu sem eru með snjallsíma að sækja viðbótarfróðleik, auk þess sem þar er hægt er að nálgast mynd af skiltunum. Einnig má finna þessar upplýsingar með því að fara á heimasíðu Akureyrarstofu.

Söguvörðurnar eru samstarfsverkefni Minjasafnsins á Akureyri, Akureyrarstofu og umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar en Norðurorka hefur frá upphafi verið helsti bakhjarl verkefnisins. Söguvörðurnar eru gjöf til Akureyringa og eru alfarið unnar heima í héraði. Minjasafnið lagði til gamlar ljósmyndir, Jón Hjaltason sagnfræðingur samdi texta, Teikn á lofti hefur séð um alla hönnun, smíði standanna hefur verið á höndum Útrásar og prentun var hjá Skiltagerð Norðurlands í Ólafsfirði.

Það var formaður bæjarráðs, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, sem afhjúpaði söguvörðurnar og Hanna Rósa Sveinsdóttir, Minjasafninu á Akureyri, kynnti verkefnið og leiddi síðan göngu á milli nýju varðanna.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan