Safnið í sófann!

Söfnin á Akureyri hafa nú lokað tímabundið vegna hertra reglna um samkomuhald. Til að bregðast við því, eru söfnin nú að auka virkni sína á samfélagsmiðlum undir yfirskriftinni #safniðísófann og bjóða upp á efni og viðburði sem njóta má heima og hvenær sem er.

Hér er yfirlit um nokkuð af því sem söfnin bjóða upp á nú þegar eða hafa í bígerð:

Amtsbókasafnið birtir á heimasíðu sinni, Instagram- og Fésbókarsíðu safnsins ýmislegt eins og Bók dagsins, bókaandlit, bóka- og bíómyndabingó, ljóð vikunnar alla þriðjudaga og fjölmargt fleira. Safnið vekur líka sérstaka athygli á rafbókasafni Íslands og hvernig á að nota það nú þegar útlán annarra bóka liggur niðri.

Flugsafn Íslands birtir fjölbreytt efni á Instagram- og Fésbókarsíðum sínum, s.s. fróðleiksmola, ljósmynd og mun vikunnar. Á fimmtudögum verður "flogið til fortíðar" og birtar gamlar umfjallanir og auglýsingar um flug sem eru skemmtilegar og oft og tíðum nokkuð skondnar. Myndir frá Flugdögum fyrri ára verða birtar á hverjum föstudegi. Þá vekur safnið athygli á margs konar fróðleik sem má finna á heimasíðu þess.

Héraðsskjalasafnið birtir myndir af ýmsum skemmtilegum og áhugaverðum skjölum á Fésbókar- og Instagram síðum sínum og vekur líka athygli á þeim mynduðu skjölum sem finna má á miðlunarvef safnsins en þar er margt sem gaman getur verið að gramsa í.

Iðnaðarsafnið kynnir á Fésbókarsíðu sinni fyrirtæki vikunnar. Safnið ætlar líka að biðla til hagyrðinga og vísnasmiða um að setja saman vísur um Akureyri og/eða þá undarlegu tíma sem við lifum og birta á Fésbókinni. Upplýsingar um safnkost Iðnaðarsafnsins má einnig finna á sarpur.is.

Listasafnið birtir nú daglega listaverk dagsins á Instagram síðu sinni. Á Fésbókar- og heimasíðu safnsins munu innan skamms birtast stutt myndskeið, þar sem sagt verður frá völdum verkum úr fórum safnsins. Einnig er í undirbúningi listamannaspjall sem aðgengilegt verður í gegnum hlaðvarpsveitur. Fylgist vel með því!

Minjsafnið býður á heimasíðu sinni upp á ljósmyndasýninguna Þekkir þú... ásamt eldri ljósmyndasýningum og myndasafni. Mikið efni bætist þessa dagana inn á heimasíðuna en heilmiklar upplýsingar safngripi og myndir má líka finna á sarpur.is.

Á samfélagsmiðlum safnsins má finna „nýjar vörur daglega" en þar er fjallað um ljósmyndir, gripi og annan fróðleik. Í undirbúningi eru líka upptökur sem gerðar verða í Davíðshúsi – upplestur og tónlist. Missið ekki af!

Verið dugleg að fylgjast með heimasíðum safnanna og starfi þeirra á samfélagsmiðlum.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan