Strætósinfónía Egils Andrasonar, sumarlistamanns Akureyrarbæjar 2023.
Minnt er á að frestur til að skila inn umsóknum til Menningarsjóðs Akureyrar fyrir árið 2024 rennur út á miðnætti miðvikudaginn 22. nóvember nk.
Hægt er að sækja um í fjórum flokkum eftir því sem við á:
- Verkefnastyrkir
Verkefni sem styðja við menningarstarfsemi í sveitarfélaginu Akureyrarbæ.
Styrkir eru að upphæð 80.000-400.000 kr. Einnig verður úthlutað tveimur styrkjum að upphæð 600.000 kr. hvor til verkefna í göngugötunni yfir tímabilið júní - ágúst eða til stærri verkefna í tengslum við Akureyrarvöku ( 30.8 -1.9 2024).
- Samstarfssamningar
Verkefni sem stuðla að fjölbreyttu menningarlífi í Sveitarfélaginu. Einungis skráð félagasamtök í sveitarfélaginu Akureyrarbæ geta sótt um samstarfssamning við sjóðinn til tveggja eða þriggja ára. Árleg upphæð samstarfssamnings getur verið allt að 400.000 kr.
- Starfslaun listamanna
Umsóknir skulu innihalda greinargóðar og hnitmiðaðar upplýsingar um fyrirhuguð verkefni á starfslaunatímabilinu, listferil og menntun. Árið 2024 veitir Menningarsjóður Akureyrarbæjar starfslaun sem dreifast jafnt yfir 9 mánuði. Árið 2023 voru starfslaunin 2.970.000 kr. en árið 2024 eru þau uppreiknuð með hliðsjón af launavísitölu eins og hún stendur í janúar. Öllum sem hafa lögheimili í sveitarfélaginu Akureyrarbæ og starfa að öllu eða mestu leyti í sveitarfélaginu er heimilt að sækja um í eigin nafni.
- Sumarstyrkur ungra listamanna
Úthlutað verður 1-2 styrkjum til ungs og efnilegs listafólks á aldrinum 18-25 ára sem er í framhaldsnámi eða á leið í framhaldsnám í sinni grein. Markmiðið er að
viðkomandi geti dregið úr sumarvinnu (júní-ágúst) með námi og þess í stað lagt stund á list sína bæði með æfingum og viðburðum. Upphæð hvers styrks er 600.000 kr. sem dreifist jafnt yfir mánuðina júní, júlí og ágúst. Á móti styrknum mun viðkomandi halda viðburði yfir tímabilið júní - ágúst, allt eftir nánara samkomulagi við forstöðumann atvinnu- og menningarmála og verkefnisstjóra menningarmála.
Skilafrestur allra umsókna er til og með 22. nóvember 2023.
Hagnýtar upplýsingar:
Upplýsingar um reglur Menningarsjóðs, Samþykkt um starfslaun listamanna og Menningarstefnu Akureyrar má sjá HÉR.
Sótt er um rafrænt í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar á www.akureyri.is. Athugið að einungis er hægt að opna umsóknina með íslykli eða rafrænum skilríkjum.
Nánari upplýsingar veitir Almar Alfreðsson verkefnastjóri menningarmála í netfanginu almara@akureyri.is.