Réttindi barna í stafrænum heimi

Um þessar mundir hefur hópur ungmenna á Akureyri unnið að réttindaverkefni með verkefnastjóra barnvæns sveitarfélags í samvinnu við umboðsmann barna. Verkefnið snýr að réttindum barna í stafrænum heimi og er hluti af ENYA (European Network of Young Advisors) sem vinnur með evrópskum samtökum umboðsmanna barna. 
Samstarfsverkefnið á þessu ári ber yfirskriftina Let's talk young, let's talk about children's rights in the digital environment sem hefur það að markmiði að gefa ungmennum tækifæri til að láta í sér heyra varðandi eigin réttindi í tengslum stafræna tækni og umhverfi. Niðurstöður ungmennanna verða síðan kynntar á árlegum fundi umboðsmanna barna í Belfast í haust þar sem sérstök áhersla verður lögð á réttindi barna í stafrænu umhverfi.


Umboðsmaður barna tekur í fyrsta sinn í þátt í þessu samstarfsverkefni og eru tveir hópar starfandi á landsvísu, annar í Reykjavík og hinn hér á Akureyri. Hóparnir samanstanda af 6-12 börnum á aldrinum 12 – 17 ára og hittist hópurinn hér á Akureyri fjórum sinnum. Í fyrsta tímanum byrjuðum við á réttindafræðslu og fræðslu um Barnasáttmálann, þá ræddum við einnig hvernig þau skilja stafrænt umhverfi áður en eiginleg vinna hófst. Þau komu sér saman um hvað það var sem skiptir þau mestu máli í þessu samhengi og úr varð að hópurinn hér á Akureyri lagði áherslu á; Upplýsingar, Tjáningarfrelsi, Öryggi og Einkalíf. Þau ákváðu þá að þau vildu skila niðurstöðunum í myndverki sem var sýnt í Brussel í morgun við mikinn fögnuð viðstaddra.

Í dag, 25. júní, hófst svo ráðstefna Umboðsmanna barna í Evrópu í Brussel, þar sem afraksturinn er kynntur. Að auki var tveimur ungmennum boðið að sækja ráðstefnuna með umboðsmanni barna, Salvör Nordal. Þá fór einn fulltrúi frá Akureyri og einn fulltrúi frá Reykjavík. Illugi Dagur, nemandi í 6. Bekk í Oddeyrarskóla var kosinn til að fara út fyrir hönd barnanna á Akureyri og er okkur þar til mikils sóma.

Í umræðum barnanna kom margt virkilega áhugavert fram, þau ræddu málefnið og vörpuðu fram hugmyndum. Að lokum kusu þau lýðræðislega um það hvað þau vildu fjalla nánar um. Hér fyrir neðan má sjá nokkur af þeim ummælum sem féllu í þeirri umræðu.
„Af því að það skiptir máli að við séum ekki útilokuð frá upplýsingum þó við séum börn."
„Upplýsingar hjálpa okkur að þroskast."
„Af hverju eru börn framtíðin en enginn segir okkur neitt."
„Börn vita meira hvað börn vilja en fullorðnir."
„Við höfum okkar skoðanir."
„Við þurfum öryggi, við eigum rétt á því."
„Enginn á að segja eitthvað ljótt við okkur."
„Það er ekkert öryggi í því ef hver sem er getur séð allt sem við gerum."
„Auðveldara fyrir fólk að finna okkur á netinu en í alvörunni."
„Ég á rétt að enginn lesi skilaboðin mín við vini mína."
„Að hafa einkalíf getur komið í veg fyrir einelti og óþarfa áreiti."
„Það eru svo miklar upplýsingar um okkur á netinu að það er nauðsynlegt að hafa einkalíf."

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan