Réttindaskólar í Barnvænu sveitarfélagi

Frá vinstri: Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri Giljaskóla, Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNIC…
Frá vinstri: Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri Giljaskóla, Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNICEF, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Bryndís Björnsdóttir skólastjóri Naustaskóla undirrituðu samstarfssamninginn.

Giljaskóli og Naustaskóli verða Réttindaskólar UNICEF. Samkomulag þess efnis var undirritað í Naustaskóla í gær og markar tímamót fyrir Akureyrarbæ.

Skólarnir tveir heita því að leggja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til grundvallar í öllu sínu starfi. Markmiðið er að byggja upp lýðræðislegt námsumhverfi, auka þekkingu á mannréttindum og stuðla að gagnkvæmri virðingu innan skólasamfélagsins. Með verkefninu er skapaður rammi utan um þau markmið sem koma fram í aðalnámskrá grunnskóla, grunnskólalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, jafnrétti og lýðræði. Akureyrarbær er nú á lokastigi innleiðingar verkefnisins Barnvænt Sveitarfélag og eru Réttindaskólarnir mikilvæg viðbót þar sem mikill samhljómur er milli þessara verkefna.

Réttindaskólar eru alþjóðlegt vottunarverkefni sem hefur skilað miklum árangri víða um veröld. Rannsóknir sem gerðar hafa verið í fleiri en 1.600 Réttindaskólum leiða í ljós jákvæð áhrif á skólastarf. Það er valdeflandi fyrir börnin að þekkja réttindi sín og innan Réttindaskólanna hefur dregið úr einelti og ofbeldi, nemendum líður betur og þeir sýna meira umburðarlyndi gagnvart fjölbreytileika. Starfsánægja kennara hefur einnig aukist töluvert, nemendur taka aukinn þátt í skólastarfinu og þeir hafa meira sjálfstraust.

Starfsfólk UNICEF á Íslandi hefur síðustu mánuði unnið náið með bæði Giljaskóla og Naustaskóla að innleiðingu Réttindaskólanna og mun halda því áfram næstu misseri. Báðir skólar hafa nú þegar stofnað svokölluð Réttindaráð sem eru skipuð fulltrúum úr röðum nemenda, starfsmanna skólanna og foreldra. Einnig hafa verið skipaðir umsjónarmenn Réttindaskólanna sem halda utan um innleiðingu verkefnisins og vinna, ásamt Réttindaráði, að kortlagningu á stöðu barna innan skólanna. Kortlagningin felur í sér viðhorfskönnun meðal barna, ungmenna og starfsfólks, aðgengiskönnun og öryggiskönnun. Loks verður lögð fram aðgerðaáætlun og að lokinni þriggja anna innleiðingu geta skólarnir sótt um viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan