Rauðu hjörtun í útrás

Óhefðbundin umferðarljós, þar á meðal rauð hjörtu að Akureyrskri fyrirmynd, vöktu nýverið athygli á árlegri ljósahátíð í Durham í Englandi.

Lumiere ljósahátíðin er sú stærsta sinnar tegundar í Bretlandi og haldin í nokkrum borgum. Listamaðurinn Mike Donaghy, sem starfar hjá Durham, hafði samband við Akureyrarbæ fyrir um hálfu ári til að fræðast um hjörtun í umferðarljósunum. „Hann langaði til að prófa þetta á ljósahátíðinni í Durham. Við sendum honum hjartamátann okkar og útskýrðum hvernig þetta væri gert og hvað þyrfti að varast. Úr varð að hann fékk leyfi fyrir þessu,“ segir Jónas Valdimarsson, verkefnastjóri hönnunar á umhverfis- og mannvirkjasviði.

Útkoman er vægast sagt skemmtileg. Mike lét ekki nægja að breyta rauðu ljósi í hjarta, heldur var því gula breytt í broskarl og því græna í heimskort. Svona var þetta í nokkra daga um miðjan nóvember á meðan hátíðinni stóð.

Sem kunnugt er hafa um árabil verið rauð hjörtu í umferðarljósum á Akureyri sem hafa eignast fastan sess í hjörtum bæjarbúa og vakið mikla og jákvæða athygli gesta. Í umfjöllun á vef Lumiere kemur einmitt fram að Mike hafi heimsótt Akureyri og þaðan sé innblásturinn, enda hafi hann strax tengt við hugmyndina um að nota ljós til að gleðja fólk með listaverkum á óvæntum stöðum.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan