Rafrænt yfirlit fasteignagjalda

Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Nú eru álagningarseðlar fasteignagjalda fyrir árið 2019 aðgengilegir Akureyringum í íbúagátt sveitarfélagsins og einnig á island.is. Af umhverfissjónarmiðum og til að spara pappír og póstburðargjöld hefur verið ákveðið að senda seðlana ekki inn á hvert heimili í bænum. Þeir sem vilja eftir sem áður fá sent yfirlit álagningarinnar á pappír geta óskað eftir því í íbúagáttinni eða hringt í þjónustuver Akureyrarbæjar í síma 460 1000.

Eflaust velta margir fyrir sér þeim breytingum sem orðið hafa á milli ára en bæjarstjórn Akureyrar ákvað annað árið í röð að lækka álagningarprósentu á íbúðarhúsnnæði á milli ára. Jafnframt var álagningaprósenta á atvinnuhúsnæði lækkuð. Lækkunin á milli ára nemur í heildina 56 milljónum króna á íbúðarhúsnæði sem þýðir að álagning meðalíbúðar með 35 milljóna króna fasteignamat er 7.000 kr. lægri en orðið hefði með óbreyttri álagningarprósentu.

Samhliða þessu var tekjumörkum í reglum um afslátt á fasteignaskatti hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum breytt og hámarksfjárhæð afsláttar var aukin. Nú liggur fyrir að 686 elli- og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignaskatti 2019 og er heildarfjárhæð afsláttar tæplega 43 milljónir króna og meðaltalsfjárhæð afsláttar því 62.700 krónur. Að sjálfsögðu er afslátturinn mishár eftir tekjum en getur hæst farið í 107 þúsund krónur. Hámarksfjárhæð afsláttar á árinu 2018 var 100 þúsund krónur.

Afsláttur á fasteignaskatti er reiknaður út frá tekjum samkvæmt skattframtali 2018 og ekki þarf að sækja um þennan afslátt. Hægt er að sjá fjárhæð afsláttarins á álagningarseðli fasteignagjalda en þeir eru sem áður segir aðgengilegir í íbúagáttinni hér á Akureyri.is.

Heildarálagning fasteignagjalda ársins 2019 er rúmir 3,7 milljarðar króna sem skiptist svo: Fasteignaskattur 2.191 milljónir króna, lóðarleiga 467 milljónir króna, vatnsgjald 320 milljónir króna, fráveitugjald 442 milljónir króna og sorphirðugjald 310 milljónir króna. Á árinu 2018 nam álagningin samtals tæplega 3,4 milljörðum króna.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan