Rafrænn kynningarfundur um Holtahverfi norður

Mánudaginn 21. september kl. 17:30 verður haldinn rafrænn kynningarfundur vegna deiliskipulags fyrir Holtahverfi norður - nýtt uppbyggingarsvæði í kringum Krossanesbraut.

Markmiðið með nýju deiliskipulagi er meðal annars að bjóða upp á íbúðir á einu fallegasta svæði Akureyrar, bæta umferðarskipulag á svæðinu og huga að nýjum gönguleiðum og útivistarsvæðum. Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar. 

Akureyrarbær leggur mikla áherslu á að kynna deiliskipulagið vel með fjölbreyttum hætti og koma þannig til móts við mismunandi þarfir íbúa. Fyrr í vikunni var opið hús í menningarhúsinu Hofi þar sem var hægt að skoða hugmyndir að uppbyggingu á myndrænan og aðgengilegan hátt. Þá var íbúum og öðrum áhugasömum einnig boðið í göngutúr með leiðsögn um skipulagssvæðið. 

Fundurinn á mánudaginn verður haldinn með fjarfundakerfinu Zoom og er öllum opinn. Hægt er að mæta til fundar með því smella hér. Fundargestir eru beðnir um að skrá sig inn tímanlega, nokkrum mínútum áður en fundurinn hefst. 

Á fundinum mun Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar kynna tillögu að deiliskipulaginu. Hægt verður að spyrja spurninga meðan á erindi hans stendur með því að skrifa í spjallsvæði (chat) sem verður svarað í lokin. 

Fundurinn verður einnig tekinn upp og gerður aðgengilegur á miðlum Akureyrarbæjar við fyrsta tækifæri. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan